Bæjarráð Fljótsdalshéraðs hefur fyrir sitt leyti samþykkt samkomulag við ríkið um skiptingu leigutekna þessara aðila sem landeiganda á vatnasvæði Geitdalsárvirkjunar.

Í þeirri útgáfu samkomulagsins sem bæjarráðið samþykkti eru sagðar hafa verið gerðar minniháttar breytingar sem ræddar hafi verið á fundinum.

Þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um hafnar Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, að afhenda afrit af hinum samþykkta samningi að svo stöddu.

„Eins og fram kemur í afgreiðslu bæjarráðs þá er þetta afgreitt með ákveðnum breytingum sem þarf að bera undir hinn aðila samningsins, fjármálaráðuneytið, áður en hægt verður að ganga frá samningnum. Þegar endanlegur samningur liggur fyrir verður hægt að afhenda hann,“ segir bæjarstjórinn.

Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, segir ekki búið að ganga frá samkomulaginu.

„Um leið og það liggur fyrir er hægt að afhenda þér það,“ segir í svari Elvu til blaðamanns.

Geitdalsárvirkjun er verkefni samnefnds einkahlutafélags sem er í eigu Arctic Hydro. Áætlað er að afl virkjunarinnar verði allt að 9,9 megavött.

„Megininnrennslið í Geitdalsá er úr Leirudalsá, sem rennur í gegnum nokkur vötn á leið sinni úr vestri. Eitt þessara vatna mun fara undir fyrirhugað miðlunarlón,“ segir í skýrslu verkfræðistofunnar Mannvits um framkvæmdina sem enn er í umhverfismati.

Meðal þess sem tilheyrir framkvæmdinni er þriggja ferkílómetra miðlunarlón 702 metra hæð yfir sjávarmáli í Leirudal.

Lengd stíflu er áætluð um einn kílómetri og hæð hennar átján metrar.

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður Alþýðubandalagsins og fyrrverandi iðnaðarráðherra, er einn þeirra sem andmælt hefur Geitdalsárvirkjun.

„Hér er um að ræða náttúrufarslega afar verðmætt svæði sem er ósnortið víðerni án teljandi mannvirkjagerðar en nýtt til sauðfjárbeitar um aldir,“ segir í umsögn Hjörleifs.

„Ég vil ekki trúa því að bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og sérfróðir sem vinna í hennar þágu fari að greiða götu virkjana á þessu svæði, þegar um er að ræða aðra og langtum mikilvægari kosti til framtíðarnota,“ segir einnig í athugasemdum iðnaðarráðherrans fyrrverandi.