Jarðboranir hf. hafa tryggt sé verkefni fyrir 2,6 milljarða króna á Asóreyjum að því er kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér.

„Sú neikvæða umræða sem er á Íslandi varðandi frekari orkuvinnslu er áhyggjuefni. Ef sú umræða verður til þess að hér verða engar framkvæmdir í framtíðinni þá mun það leiða til þess að sú sérfræðiþekking sem við höfum byggt upp á undanförnum áratugum mun smám saman hverfa,“ segir Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana.

Hið nýja verkefni á Asóreyjum sem er portúgalskur eyjaklasi í miðju Norður-Atlantshafinu, snýst um borframkvæmdir á eyjunum Sao Miguel og Terceira. Samningur Jarðborana er við portúgalska orkufélaginu EDA Renováveis.

Sigurður segir Jarðboranir hafa fengið verkið í samkeppni við tvö önnur evrópsk borfyrirtæki í útboði á Evrópska efnahagssvæðinu. Bora eigi níu holur sem verði á bilinu 1.000 til 2.300 metra djúpar. Verkið á að taka eitt til eitt og hálft ár.

Verkefni á Íslandi í lágmarki á næstunni

„Þessi samningur er mikilvægur fyrir félagið, þar sem borframkvæmdir á Íslandi verða í lágmarki næstu tvö árin. Eins og staðan er núna á okkar mikilvæga heimamarkaði, þá munu Jarðboranir reyna að sækja frekari verkefni erlendis, á meðan starfsemi á Íslandi verður í lágmarki,“ segir Sigurður.

Að sögn Sigurðar er áætlað að flytja borinn Óðin á vordögum frá eyjunni St. Vincent í Karíbahafi, þar sem Jarðboranir eru að ljúka við þrjár jarðhitaholur. „Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á Asóreyjum í sumar, fyrst á eyjunni Sao Miguel þar sem fyrir eru tvö raforkuver sem nýta jarðhitann úr holum sem boraðar voru af Jarðborunum fyrir um átta til fimmtán árum,“ segir hann.

Hafa borað í tíu löndum

Sigurður segir að á síðustu fimmtán árum hafi fyrirtækið unnið mikið starf í að sækja verkefni erlendis og borað jarðhitaholur í tíu löndum víðs vegar um heiminn.

„Félagið nýtur virðingar á hinum alþjóðlega markaði vegna sérþekkingar sinnar sem það hefur aflað sér hér á landi og erlendis. Áhugi á nýtingu jarðhita til orkuvinnslu og húshitunar fer vaxandi víða erlendis, þar sem um er að ræða vistvæna og endurnýjanlega orku.“ segir forstjóri Jarðborana.