Covid-19 var rætt á ríkisstjórnarfundi í dag. Frá þessu greinir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið, en hún segir að ekki sé ástæða til að grípa til sóttvarnaaðgerða að svo stöddu vegna útbreiðslu sjúkdómsins í Kína.

„Það er ekkert beint flug hingað frá Kína,“ bendir Katrín á og segir að þar af leiðandi yrðu viðbragðsaðgerðir mjög miklar af lítilli ástæðu.

„Það er mjög flókið að greina hvaðan ferðamenn eru að koma nema með mjög ernum aðgerðum. Og sóttvarnalæknir metur það svo að það séu ekki lýðheilsuleg rök fyrir því að grípa til svo víðamikilla aðgerða,“ segir hún og bætir við „En við fylgjumst mjög vel með.“

Staðan í heilbrigðiskerfinu ekki ferðalöngum að kenna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók í sama streng og Katrín og benti á að þar sem engin bein flug væru til Kína væri ekki ástæða til að fara í aðgerðir.

„Og fyrir mér líkur umræðunni þar,“ sagði hún. „Það þarf ekkert að ræða það hvort við eigum að taka upp einhverjar tilraunakenndar skimanir á landamærum út af ferðalöngum.“

Líkt og Katrín sagði hún mikilvægt að fylgjast vel með gangi máli, en nú væri ekki um vandamál að ræða. „Eins og staðan er núna er þetta ekkert vandamál. Staðan í heilbrigðiskerfinu hér heima hefur ekkert með ferðalanga frá Kína að gera. Í mínum huga er augljóst að þetta kallar á engar aðgerðir.“

„Við hér erum sem betur fer hætt að velta þessum sjúkdómi sérstaklega fyrir okkur.“ Sagði Þórdís Kolbrún.

„Auðvitað hefur maður alltaf áhyggjur“

„Jájá, auðvitað hefur maður alltaf áhyggjur,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra aðspurður út í stöðu mála á Íslandi varðandi Covid-19.

Hann bendir á að sóttvarnalæknir hafi fundað um stöðu mála og nú væri staðan fyrst og fremst sú að verið væri að vakta stöðuna. „Það sem þarf að vakta mjög vel er hvort það komi ný afbrigði, en svo er ekki.“