„Ég og Nonni höfum tengingu við Nesið. Konan mín er alin upp á Bollagörðum og öll tengdafjölskylda konu Nonna tengist Nesinu og býr annað hvort í 170 eða 107 í Vesturbænum. Þetta er auðvitað allt samgróið,“ segir Gísli og bætir við:

„Þetta hefur gengið rosalega vel, ég segi ekki eins og í sögu, en frá því að við opnuðum hafa margir komið og ég held að allir séu ánægðir með að húsið sé búið að fá líf aftur og með þjónustuna. Það er fyrir öllu.“

Lóðin á sér langa sögu, allt til ársins 1703, en húsið sjálft var byggt á árunum 1880 til 1885. Húsið er eitt vestasta hús bæjarins. Á vef Seltjarnarnesbæjar kemur fram að margir ábúendur hafi verið í Ráðagerði frá upphafi en árið 1997 var húsið keypt og endurgert í upprunalegri mynd. Bærinn keypti það svo í byrjun árs 2018 og setti það á sölu árið 2020. Þeir Gísli, Jón Ágúst og Viktor Már gerðu kauptilboð í húsið það ár og fengu það svo afhent í júlí árið 2021.

Pallurinn úti er mjög rúmgóður FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Settu eldhúsið í bílskúrinn


Gísli segir að eitt hafi leitt af öðru og þeir endað á því að taka allt húsið í gegn. Hann segir að margt hafi verið búið að gera þegar fyrrum eigandi gerði það upp og þeir hafi þannig að einhverju leyti verið að klára þá vinnu. Vegna þess að húsið er friðað ákváðu þeir að gera eldhúsið upp í gamla bílskúrnum.

„Það var gert með tilliti til hússins sjálfs. Það hefði verið föndur að koma því fyrir þar inni,“ segir Gísli en að vegna þess hafi þeir þurft að smíða tengingu á milli húsanna.

Það er líka hægt að sitja inni.

Leituðu til fyrri eigenda


Gísli segir að eftir að þeir keyptu húsið hafi þeir grafið upp sögu þess og endað á því að hafa samband við fyrri eigendur til að vita sögu þess.

„Það var svo þannig að við vorum oft að heyra sögur af þessu húsi frá birgjum úti í bæ og við skildum ekki hvernig stóð á þessu. Við vorum komnir á það að þetta hefði verið 20 manna fjölskylda en svo kom í ljós að Anna og Kristinn, sem áttu húsið, tóku reglulega að sér börn annarra,“ segir Gísli og annar fyrri eigandi, Guðríður Kristinsdóttir, bauð reglulega ungu fólki í háskólanámi að leigja af sér herbergi.

„Við vorum komnir á það að þetta hefði verið 20 manna fjölskylda en svo kom í ljós að Anna og Kristinn, sem áttu húsið, tóku reglulega að sér börn annarra.

- Gísli

„Þegar við heyrðum þetta þá vildum við enn frekar gera þetta að einhverjum svona hverfisstað og samkomuhúsi. Að fólk gæti stoppað hérna við á morgnana, fengið sér kaffi og hitt nágrannana, auk þess sem það verður auðvitað alltaf hádegis- og kvöldmatur í boði,“ segir Gísli.

Boðið er upp á ýmislegt á staðnum eins og ítalska aperotivo-stund og svo pitsur. „Það er auðvitað eitt það alíslenskasta: föstudagspitsan, heimabökuð eða keypt.“

Ráðagerði er opið frá klukkan 9 á morgnana og til 23 á kvöldin. Eldhúsið er opið frá 11 til 22.