Með­limir úkraínsku hljóm­sveitarinnar Kalush Orchestra, sem sigraði Euro­vision söngva­keppnina í ár, hafa á­kveðið að setja Euro­vision bikarinn sem þeir hlutu í sigur­laun á upp­boð til styrktar úkraínska hernum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er þetta í fyrsta skipti í sögu Euro­vision sem bikarinn marg­frægi er seldur.

Auk þess ætla þeir að vera með happ­drætti, en aðal­vinningurinn er bleiki hatturinn sem Oleh Psiuk, for­sprakki hljóm­sveitarinnar, bar á sviðinu í Tórínó.

Psiuk greindi frá upp­boðinu og happ­drættinu á Insta­gram síðu hljóm­sveitarinnar á mið­viku­daginn og hafa við­brögðin ekki látið á sér standa. Á fyrsta degi höfðu safnast meira en sextíu þúsund evra, sem jafn­gildir tæp­lega 8,3 milljónum íslenskra króna.

Bæði upp­boðið og happ­drættið er í formi frjálsra fjár­fram­laga, en þó verður að greiða að lágmarki fimm evrur til að freista þess að vinna hattinn góða. Eins og sakir standa er hæsta boðið í bikarinn hvorki meira né minna en tæplega á­tján þúsund og fjögur hundruð evrur, eða rúm­lega tvær og hálf milljón ís­lenskra króna.

„Við unnum Euro­vision söngva­keppnina og nú viljum við hjálpa Úkraínu að vinna stríðið. Hver einasta evra mun bjarga lífum úkraínskra her­manna,“ segir Psiuk í myndbandi á Instagram.

Upp­boðinu lýkur á morgun, 28. maí og verða sigur­vegarar til­kynntir á Insta­gram síðu hljóm­sveitarinnar.