„Við erum með GSM posa og þegar hann er búinn þá er ballið búið,“ segir Stella Þórðardóttir á Frederikssen sem var enn með viðskiptavini og að afgreiða drykki til þeirra en það var enn kæling á skápum og hægt að afgreiða í gegnum GSM posa.
Hún átti ekki von á því að það yrði mikið að gera í kvöld og því yrði lokað snemma.
Eins og greint var frá fyrr í kvöld þá var rafmagnslaust í miðbæ og hluta Vesturbæjar og veitingamenn í miklum vandræðum. Nú fyrir stuttu kom rafmagn aftur á en rafmagnsleysið varði í um 90 mínútur.

Þurfa að farga mat
Fréttablaðið ræddi við veitingamenn í kvöld sem sögðust taka þessu með stóískri ró en aðrir átti von á því að þurfa að farga mat sem ekki væri í kæli.
„Við tökum þessu með stóískri ró bara. Það var ekki mikið af innritunum hjá okkur í dag og gestirnir sína þessu skilning. Kemur sér vel að við erum ekki stærra hótel,“ sagði Helgi Vigfússon á Reykjavík Konsúlat Hótel.
Á Radison blu 1919 var ekki hægt að ræða við starfsfólk sem var í vandræðum með að innrita gesti.
„Við erum nú þegar búin að fá mikið af fólki sem fær ekki matinn sem það pantaði og höfum þurft að farga mat. Kemur sér sérstaklega illa þar sem það er föstudagur,“ sagði Kristján Þorsteinsson, eigandi Osushi og The Hungry Chef Cafe.

Þá sagði rekstrarstjóri á Gauknum að þau væru að skoða hvort það þyrfti að breyta tónleikum kvöldsins í acoustic tónleika en voru óviss um það hvort þau myndu hafa opið.
