„Við höfum áhyggjur af meðafla í grásleppuveiðum, sérstaklega á selum, þar sem stofnarnir eru litlir hjá okkur vegna ofveiði á árum áður,“ segir Guðjón Már Sigurðsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Guðjón bendir á að á árunum 2014 til 2018 hafi uppreiknaður fjöldi sela sem veiddust í grásleppunet verið 2.695 dýr á hverju ári. Þar af voru 1.389 landselir sem taldir eru í bráðri útrýmingarhættu. Landselastofninn er metinn vera um 9.400 dýr. Helsta dánar­orsök landsela er drukknun í veiðarfærum.

„Lítið sem ekkert er hægt að gera til að koma í veg fyrir að selirnir festist í netunum,“ segir Guðjón.

Ýmislegt hefur verið prófað. Hljóðmerki, sem virka til að mynda vel til að fæla smáhvali, höfrunga og hnísur frá netunum, hafa takmörkuð áhrif á selina „Selirnir fara bara frá í nokkra daga áður en þeir koma aftur að rannsaka málið. Þeir eru svo klárir,“ útskýrir Guðjón.

Selirnir ekki nýttir

Frá árinu 2019 hefur bein veiði á selum verið bönnuð nema sótt sé um undanþágu fyrir nytjaveiðar. „Selirnir sem veiðast sem meðafli í netin eru almennt ekki nýttir og detta yfirleitt úr netunum áður en þeir eru dregnir um borð,“ segir Sandra M. Granquist, deildarstjóri líffræðirannsóknarsviðs hjá Selasetrinu.

Hafrannsóknastofnun heldur utan um tölulegar upplýsingar um spendýr og sjófugla sem veiðast í grásleppunet. Tölurnar byggja á skrásetningu eftirlitsmanna Fiskistofu sem fara með um borð í um það bil tvö prósent túra á veiðitímabilinu. Tölurnar eru því ekki mjög nákvæmar og þarf að uppreikna fjölda spendýra út frá þeim meðafla sem veiðist þegar eftirlitsmenn eru um borð.

Guð­jón Már Sigurðs­son sjávar­líf­fræðingur hjá Haf­rann­sóknar­stofnun.

Skipstjórar skrái ekki meðaflann

Þrátt fyrir að skráningarskylda sé þegar selir veiðast bendir Guðjón á að skipstjórar skrái ekki alltaf meðaflann hjá sér og þess vegna sé heildarfjöldinn einungis reiknaður út frá tölum Fiskistofu

„Skipstjórar hafa ýmsar ástæður til að skrá þetta ekki hjá sér og þess vegna geta tölurnar breyst töluvert milli ára,“ segir Guðjón. Tiltölulega nýbyrjað er að fylgjast með meðafla á kerfisbundinn hátt og erfitt að meta hvort aflinn sé að aukast eða minnka milli ára.

Fjöldi spendýra sem meðafli við Íslandsstrendur vekur ekki einungis áhyggjur sérfræðinga hér á landi. Til stóð að loka á útflutning íslenskra fiskafurða til Bandaríkjanna þann 1. janúar 2022 þar sem Íslendingum tókst ekki að standast nýjar kröfur Bandaríkjanna í þessum efnum.

Nýlega fékk Ísland ásamt öðrum löndum ársfrest vegna heimsfaraldursins. Gafst þá aukinn tími til að sýna að hægt væri að minnka fjöldann. Náist ekki að draga úr drápinu verður endurskoðun á útflutningsbanni ekki möguleg fyrr en fjórum árum eftir að bann tekur gildi í byrjun árs 2023.