Vlodimír Selenskíj, forseti Úkraínu, ávarpaði þingmenn í fulltrúadeild bandaríkjaþings nú fyrir stundu og upplýsti þingmenn um stöðu stríðsins og kallaði eftir frekari aðstoð.

Forsetinn byrjaði á því að segja að nú sé verið að ákveða „örlög landsins“ á meðan þjóð hans verjist hetjulega gegn innrásarher Rússlands.

Í stafrænu ávarpi sínu kallaði Selenskíj eftir því að Bandaríkin og NATO kæmu á fót flugbanni yfir loftrými Úkraínu. Bón sem Selenskíj hefur áður borið undir ráðamenn Bandaríkjanna og jafnframt verið synjað um.

Bandarísk yfirvöld telja slíkar aðgerðir gætu stigmagnað ástandið og hugsanlega leitt til átaka milli Rússlands og NATO.

Þingheimur reis úr sætum, þvert á stjórnmálaflokka og gaf forsetanum standandi lófatak.
Fréttablaðið/Getty

Þá sýndi Selenskjí þingmönnum átakanlegt myndskeið af sprengjuárásum og átökum við Rússa.

Samkvæmt fréttaveitu CNN hafði þetta myndband mikil áhrif á áhorfendur í sal og merkir að þingmaður Repúblikana, Victoria Spartz, sem er af úkraínskum ættum, hafi komist í mikið uppnám.

Þá kallaði Selenskíj eftir því að Bandaríkjamenn beittu Rússland fleiri refsiaðgerðum og að þær ættu að beinast í auknum mæli að rússneskum embættismönnum.

Bæði repúblikanar og demókratar voru hrærðir yfir erindi forsetans og undir lok ræðu sinnar uppskar Selenskíj standandi lófatak meðal allra þingmanna í salnum.