Volodímír Selenskíj, forseti Úkraínu, hefur beðið leiðtoga NATO um betri vopn og aukið fjármagn vegna innrásar Rússlands. Hann segir stríðið auðveldlega geta teygt sig yfir landamæri Úkraínu, og þá til aðildarlanda NATO. Al Jazeera greinir frá.
Selenskíj ávarpaði þrjátíu leiðtoga aðildarlanda NATO í morgun í gegnum fjarfundabúnað, en þeir eru samankomnir í Madríd á Spáni vegna leiðtogafundar NATO sem hófst í gær.
Selenskíj líkti stríðinu milli Úkraínu og Rússlands við „stríð fyrir réttinum til að ráða forsendum í Evrópu og hvernig skipulag heimsins til framtíðar verði.“
„Spurningin er, hverjir eru næstir á lista Rússa? Moldavía? Eystrasaltsríkin? Pólland? Svarið er öll þeirra,“ sagði Selenskíj. „Við þurfum að stöðva forskot rússneska stórskotaliðsins. Við þurfum miklu nútímalegri stórskotaliðstæki.“
Úkraínskir embættismenn hafa í auknum mæli kallað eftir kraftmeiri skotvopnum þar sem herlið Rússa hefur beint spjótum sínum aftur að austurhluta Donbas héraðsins.
Selenskíj bætti við að fjárhagslegur stuðningur væri á engan hátt minna mikilvægur en hjálp í formi stríðsvopna. Kænugarður þurfi um fimm billjónir Bandaríkjadollara á mánuði í varnaraðgerðir.