Volodímír Selenskíj, for­seti Úkraínu, hefur beðið leið­toga NATO um betri vopn og aukið fjár­magn vegna inn­rásar Rúss­lands. Hann segir stríðið auð­veld­lega geta teygt sig yfir landa­mæri Úkraínu, og þá til aðildar­landa NATO. Al Jazeera greinir frá.

Selenskíj á­varpaði þrjá­tíu leið­toga aðildar­landa NATO í morgun í gegnum fjar­funda­búnað, en þeir eru saman­komnir í Madríd á Spáni vegna leið­toga­fundar NATO sem hófst í gær.

Selenskíj líkti stríðinu milli Úkraínu og Rúss­lands við „stríð fyrir réttinum til að ráða for­sendum í Evrópu og hvernig skipu­lag heimsins til fram­tíðar verði.“

„Spurningin er, hverjir eru næstir á lista Rússa? Moldavía? Eystra­salts­ríkin? Pól­land? Svarið er öll þeirra,“ sagði Selenskíj. „Við þurfum að stöðva for­skot rúss­neska stór­skota­liðsins. Við þurfum miklu nú­tíma­legri stór­skota­liðs­tæki.“

Úkraínskir em­bættis­menn hafa í auknum mæli kallað eftir kraft­meiri skot­vopnum þar sem her­lið Rússa hefur beint spjótum sínum aftur að austur­hluta Donbas héraðsins.

Selenskíj bætti við að fjár­hags­­legur stuðningur væri á engan hátt minna mikil­­vægur en hjálp í formi stríðs­vopna. Kænu­­garður þurfi um fimm billjónir Banda­ríkja­dollara á mánuði í varnar­að­­gerðir.