Volodímír Selenskíj, forseti Úkraínu, var að vonum ánægður með sigur Úkraínsku hljómsveitarinnar Kalush Orchestra í Eurovision í gærkvöldi og lýsti því yfir að hann vildi halda keppnina í hafnarborginni Mariupol að ári liðnu.

The Guardian greinir frá.

Úkraínuforseti brást við sigri sinna manna í gærkvöldi með færslu á Telegram þar sem hann sagði: „Hugrekki okkar heillar heiminn, tónlistin okkar sigrar Evrópu! Á næsta ári mun Úkraína halda Eurovision."

Þá sagði Selenskíj einnig að landið myndi gera sitt besta til að hýsa þátttakendur og gesti Eurovision í borginni Mariupol en borgin hefur verið undir linnulausum árásum Rússa frá því að stríðið hófst.

Selenskíj sagðist viss um að sigur úkraínsku þjóðarinnar í stríðinu væri ekki langt undan.

Aðalsöngvari Kalush Orchestra, Oleh Psiuk, óskaði eftir aðstoð heimsins í lok flutnings þeirra á sviðinu í gærkvöldi. Hann sagði: „Hjálpið Úkraínu, Mariupol. Hjálpið Azvostal strax!“

Þrátt fyrir að Eurovision keppnin sé ópólitísk og bannað sé að senda skilaboð af þessu tagi verður ekki gripið til aðgerða gegn hljómsveitinni samkvæmt skipuleggjendum keppninnar.

Skilaboð þeirra sem og annarra keppenda um Úkraínu væru mannúðleg frekar en pólitísk í eðli sínu.