Íslenskt þorskferlíki er vóg 51 kílógramm og var 180 sentimetrar að lengd var selt á 165 pund, eða um 28 þúsund krónur, á fiskmarkaðinum í Grimsby fyrir skemmstu.

Þorskurinn var veiddur af Bergey, togara Síldarvinnslunnar, við vesturströnd Íslands í lok mars.

Mikill fjöldi var samankominn til að líta á ferlíkið þegar það kom á markaðinn þann 2. apríl og var það fiskkaupmaðurinn Nathan Godley sem reiddi fram seðlana.

Godley lét mynda sig með þorskinum stóra og stillti honum svo upp í glugga verslunar sinnar í Grimsby áður en hann bútaði hann niður og seldi til viðskiptavina.

Samkvæmt staðarblöðum í Grimsby viðurkenndi Godley að hafa yfirborgað fyrir þorskinn, en tækifærið hefði verið of gott til að sleppa því.

„Ferskleikinn heillaði mig en vitaskuld snerust þessi kaup um stærðina. Hann var tíu sinnum stærri en venjulegur þorskur,“ sagði Godley við blaðið Leicestershire Live.

Þorskurinn, sem var sennilega um 20 ára gamall, var jafn þungur og þorskur sem áhöfnin á Sólrúnu frá Árskógssandi veiddi við Kolbeinsey fyrir tæpu ári.

Vegna þessara risafiska hefur hámarksþyngd þorsksins verið uppfærð á alfræðisíðunni Wikipedia úr 40 kílóum í 50.

Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands er talið að stærsti þorskur sem veiðst hafi við Íslandsstrendur, árið 1941 á Miðnessjó, hafi verið í kringum 60 kíló. En það hefur ekki fengist staðfest. Stærri þorskar hafa veiðst í Atlantshafi, sá stærsti sem vitað er um í kringum 70 kíló við Nýfundnaland.