Sala á bílum glæddist um 37 prósent í desember árið 2020 saman borið við desember árið áður, það er 804 skráningar samanborið við 587. Bílasala á árinu minnkaði hins vegar um rúmlega 20 prósent, það er 9.369 seldir bílar miðað við 11.723 árið 2019.

Bílasala minnkaði um tugi prósenta í öllum Evrópulöndum á árinu nema Noregi þar sem hún stóð næstum í stað. Í Bretlandi, á Spáni og Ítalíu hrapaði hún um 30 prósent, 25 prósent í Frakklandi og 20 í Þýskalandi. Hið sama gildir um Bandaríkin þar sem bílasala hrapaði um 20 prósent en talið er að það taki nokkur ár að vinna það upp.

Þrátt fyrir minnkandi sölu hefur verð ekki lækkað, heldur þvert á móti. Samkvæmt Wall Street Journal hefur hagstæð fjármögnun, lækkandi eldsneytisverð, minni framleiðsla og meiri eftirspurn eftir stærri og dýrari bílum ýtt verði upp í nýjar hæðir.