Kópavogsbær seldi Fannborg 6 í Hamraborg fyrir rúmar 300 milljónir króna og leigði hana svo af kaupandanum, ef leigusamningnum verður ekki sagt upp mun bærinn borga rúmar 180 milljónir króna í leigu.

Árkór, áður Stólpi, átti lægsta tilboðið í uppbyggingu í Hamraborg. Gerðir voru þrír samningar vorið 2018, einn um kaup Árkórs á Fannborg 2, 4 og 6, annar um uppbyggingu á svæðinu og þriðji var leigusamningur þar sem Kópavogsbær leigir Fannborg 6 af Árkór. Fram kemur í leigusamningnum að hann sé til fimm ára en hægt sé að segja honum upp með hálfs árs fyrirvara.

Verðið á Fannborg 6 kemur ekki fram í kaupsamningnum, heildarverðið fyrir fasteignirnar þrjár er rúmur einn milljarður króna. Flatarmál húsnæðisins er rúmir 1.500 fermetrar. Ef verðinu er deilt niður á fermetra þá má gera ráð fyrir að verðið á Fannborg 6 sé um 300 milljónir króna. Leiguverðið er 2.000 krónur á fermetra á mánuði og gerir það rúmar 180 milljónir króna á fimm árum.

Fram kemur í svari bæjarins við fyrirspurn um málið að eignirnar hafi verið seldar til að skapa skilyrði fyrir gerð nýs skipulags fyrir svæðið í heild sinni. „Húsnæði bæjarskrifstofanna Fannborg 2, Fannborg 4 og Fannborg 6 var selt á sama tíma, meðal annars til þess að skapa skilyrði fyrir gerð nýs skipulags fyrir svæðið í heild sinni. Þess má geta að komið var að kostnaðarsömu viðhaldi á Fannborg 2,“ segir í svarinu. „Á svipuðum tíma voru fest kaup á Digranesvegi 1 sem rúmar meirihluta bæjarskrifstofa Kópavogs. Samið var um leigu á Fannborg 6 til afnota fyrir velferðarsvið Kópavogs á meðan unnið yrði að varanlegri húsnæðislausn fyrir starfsemi þess.“

Fjallað verður um framtíðarskipulag svæðisins á opnum kynningarfundi sem hefst klukkan 16.30 á vef Kópavogs.