Afgan­istan stendur nú á barmi einnar verstu mann­úðar­krísu heimsins í kjöl­far þess að Talí­banar rændu völdum í landinu í ágúst. Mikill matar­skortur er í landinu, nauð­synja­vörur hafa hækkað gífur­lega í verði og talið er að milljónir Afgana gætu upplifað hungursneyð í vetur nema gripið sé til tafarlausra aðgerða.

BBC birti sláandi mynd­band þar sem tekið er við­tal við af­gönsk hjón ná­lægt borginni Herat sem þurftu að grípa til þess ör­þrifa­ráðs að selja barn­unga dóttur sína til að eiga efni á mat fyrir fjöl­skylduna.

„Hin börnin mín voru að deyja úr hungri svo við neyddumst til að selja dóttur mína. Hvernig get ég ekki verið sorg­mædd? Hún er barnið mitt. Ég vildi að ég hefði ekki þurft að selja dóttur mína,“ segir móðirin sem kemur fram í mynd­bandinu undir nafn­leynd.

Stúlku­barnið, sem er að­eins nokkurra mánaða gamalt, var selt til manns sem að segist ætla að gifta hana syni sínum síðar meir. Maðurinn keypti barnið á að­eins 500 dollara, tæpar 65.000 ís­lenskar krónur, og borgaði fjöl­skyldunni helminginn fyrir fram sem þau munu geta lifað á í nokkra mánuði.

„Við erum að svelta. Núna eigum við ekkert hveiti, enga olíu heima. Við eigum ekkert. Dóttir mín veit ekki hvernig fram­tíð hennar verður. Ég veit ekki hvernig henni mun líða með þetta en ég varð að gera þetta,“ segir faðirinn sem vann sér inn pening áður fyrr við að safna saman rusli en jafn­vel það gefur ekkert lengur í hönd.

Frétta­mönnum boðið að kaupa barn

Frétta­ritari BBC segjast hafa vit­neskju um fleiri sam­bæri­leg til­vik þar sem fólk hefur neyðst til að selja börnin sín.

„Meira að segja á meðan við vorum hér kom manneskja upp að einum í teyminu okkar og spurði hvort við vildum kaupa barnið hans. Það er erfitt að lýsa ör­væntingunni og þörfinni í þessu á­standi með orðum,“ segir Yogita Lima­ye, frétta­ritari BBC.

Sam­einuðu þjóðirnar telja að ríf­lega helmingur af­gönsku þjóðarinnar, um 22,8 milljón manns, standi frammi fyrir alvarlegu fæðuóöryggi og 3,2 milljónir barna undir fimm ára aldri gætu lent í alvarlegri vannæringu.

Afgan­istan hefur lengi verið háð neyðar­að­stoð er­lendra ríkja en greiðslur frá al­þjóða­sam­fé­laginu hafa verið stöðvaðar á meðan heims­byggðin deilir um hvort á að viður­kenna ríkis­stjórn Talí­bana.

„Það er enginn tími lengur til að ná til af­gönsku þjóðarinnar. Hún getur ekki beðið á meðan heims­byggðin deilir um hvort skuli viður­kenna ríkis­stjórn Talí­bana eða ekki,“ segir Yogita.