Sölusamningurinn sem framkvæmdastjóri Bensinlaus.is gerði við Jóhannes Þór Jóhannesson, ellilífeyrisþega, um kaup á Ford Mustang bifreið frá Bandaríkjunum í upphafi ársins var handskrifaður. Ekkert verksmiðjunúmer á bílnum kom fram á samningnum, en þar var hann skráður nýr, með ábyrgð umboðsaðila á Íslandi, en hvorugt reyndist rétt.

Forsíðufrétt blaðsins frá því í gær um ásakanir fyrrverandi starfsmanna bílasölunnar Bensinlaus.is um að núverandi forkólfar hennar seldu notaða rafbíla sem eru ekki til, hefur vakið athygli, en þar var rætt við Jóhannes Þór, sem hefur hvorki séð tangur né tetur af tæplega átta milljóna króna bíl sem hann greiddi Ívari Mána Garðarssyni, framkvæmdastjóra sölunnar í tveimur greiðslum dagana 11. og 15. janúar í byrjun árs.

Fjórir fyrrverandi starfsmenn sölunnar gengu nýverið á dyr vegna óbeitar á vinnubrögðum framkvæmdastjórans, að eigin sögn, en tveir þeirra hafa lýst því yfir að framkvæmdastjórinn hafi ítrekað veifað fölskum verksmiðjunúmerum bifreiða framan í grunlausa kaupendur á borð við Jóhannes Þór, sem vita enn ekki hvort þeir geti rift sölusamningnum og fengið greiðsluna til baka, ellegar fengið bílinn í sínar hendur. Málið er komið í hendur lögreglu.

„Ég lifi það sennilega af að tapa þessum tæplega átta milljónum króna“

Jóhannes Þór kveðst hafa selt íbúð sína erlendis til að láta draum sinn rætast á gamals aldri um að festa kaup á draumabílnum. „Ég lifi það sennilega af að tapa þessum tæplega átta milljónum króna, en ég vil vekja athygli á svona sölumennsku sem hefur ekkert með heiðarleika að gera,“ segir hann í samtali við blaðið.

Lögmaður hans er með málið í vinnslu, en síðustu viðbrögð sem hann fékk frá framkvæmdastjóra Bensinlaus.is vegna vanefnda á afhendingu á Ford Mustang draumabíl Jóhannesar Þórs, bárust um miðjan febrúar, mánuði eftir undirritun kaupsamningsins, en þar stóð orðrétt í stuttum skilaboðum: „Bíllinn er tilbúinn til innflutnings. Því fyrr sem eftirstöðvar eru greiddar, því fyrr kemst bíllinn í flutningsferli.“ Rétt er að taka fram að þá þegar var andvirði bílsins fullgreitt, að sögn Jóhannesar Þórs. Starfsmenn Eimskips hafa staðfest að umræddur bíll hafi enn ekki skilað sér á hafnarbakkann í Ameríku, sem bílasalan tilgreindi.

Framkvæmdastjóri Bensinslaus.is hefur ekki svarað fyrirspurnum eftir að þessi orðsending barst frá honum. Hann hefur heldur ekki svarað ítrekuðum símtölum Fréttablaðsins síðustu daga.

„Skrautlegasta plagg“

Alvarlegar athugasemdir voru gerðar við ársreikning Bensinlaus.is fyrir árið 2020, af hálfu löggilts endurskoðanda: „Þetta er hið skrautlegasta plagg. Félagið hefur selt bíla fyrir 15,6 mkr. en keypt þá fyrir 16.2 mkr., svo þeir eru seldir undir kostnaðarverði. Þá eiga þeir útistandandi 32,5 mkr. þó svo að ekki hafi verið selt meira en þetta, þ.e. helmingi meira en alla sölu ársins. Gæti hugsast að eitthvað af þessu séu í raun birgðir (ókomnar í hús) með tilliti til þeirrar fjárhæðar sem þeir eiga eftir að afhenda bíla fyrir sbr. hér að neðan. Innborganir á óafhenta bíla nema tæpum 39 mkr. 3,9 mkr. vantar upp á að félagið eigi fyrir skuldum skv. þessum ársreikningi. Eigendur skulda félaginu 575 þkr. sem bendir til þess að hlutaféð hafi aldrei verið innborgað.“

FÍB varaði við svikahröppum

Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttar Fréttablaðsins um meint stórfelld svik bílasölunnar Bensinslaus.is og segir þar að ástæða sé til að rifja upp viðvörunarorð FÍB þegar Alþingi breytti lögum um bílasölu 5. mars 2020.

„Með lagabreytingunni voru skilyrði um leyfisveitingu og starfsábyrgðartryggingu fyrir sölu notaðra bíla felld niður. Fullyrt var að önnur lög um neytendavernd veittu betri tryggingu. Fullyrt var að við sölu notaðra bíla væri ekki um verulegar fjárhæðir að ræða.

FÍB og Bílgreinasambandið vöruðu Alþingi sterklega við afnámi þessara skilyrða. Bent var á að kröfurnar hefðu skapað aðhald að sölufyrirtækjunum og stuðlað að almennu trausti í viðskiptum með notuð ökutæki. Þá væru skilyrðin síður en svo íþyngjandi fyrir bílasölur. Bent var á að árleg velta í viðskiptum með notuð ökutæki væri á bilinu 60-80 milljarðar króna og því um verulega fjárhagslega hagsmuni að ræða.

Sérstaklega bentu FÍB og Bílgreinasambandið á að með brottfalli þessara skilyrða væri opnað upp á gátt fyrir svikahrappa, líkt og þekktist víða erlendis.“