Lögreglan hefur haft í nógu að snúast síðustu vikuna á Suðurlandi, samkvæmt samantekt sem birt var á heimasíðu hennar. Meðal annars hefur lögreglan þurft að veita ábendingar á ýmsum veitingastöðum og gististöðum til þess að sjá til þess að sóttvarnareglum sé fylgt.

Samkvæmt skýrslunni voru fjórtán ökumenn stöðvaðir fyrir hraðakstur í liðinni viku, aðallega erlendir ferðamenn. Sá sem hraðast fór var á 130 km/klst. hraða þar sem hámarkshraðinn var 90 km/klst. Fyrir þetta uppátæki uppskar ökuþórinn sekt upp á 120 þúsund krónur. Var hann ekki lengi að reiða fram pyngjuna, enda veittur fjórðungsafsláttur fyrir þá sem greiða innan 30 daga frá álagningu sektar.

Alls voru fjórir ökumenn kærðir fyrir að nota farsíma án handfjáls búnaðar og skráningarnúmer voru fjarlægð af einum bíl sem reyndist ótryggður. Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og var einn þeirra á bíl með stolnum númeraplötum og með barn sitt meðferðis.

Einn maður varð að gista í fangageymslu á Selfossi um síðustu helgi eftir að hafa slegið annan mann svo hann hlaut skurð á höfði af, auk þess sem hann hafði brotið rúðu í útihurð íbúðarhúss þar sem kom til átakanna. Hann var látinn laus eftir yfirheyrslu og eftir að áfengisvíman rann af honum en farið var með hinn manninn til meðferðar á heilbrigðisstofnun.