Ríkissaksóknari hefur nú uppfært fyrirmæli um sektir við brotum gegn sóttvarnarlögum en meðal annars er kveðið á um 100 þúsund króna sekt fyrir alla þá sem framvísa ekki neikvæðu PCR-prófi fyrir komuna til landsin eða framvísa prófi sem er eldra en 72 klukkustunda. Þeir sem framvísa fölsuðu prófi verða ákærðir fyrir skjalafals.

Líkt og Fréttablaðið hefur áður greint frá samþykkti heilbrigðisráðherra fyrr í mánuðinum tillögur sóttvarnalæknis er varða PCR-próf en allir sem koma nú til landsins þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi.

Ákveðið var að beita ekki sektum strax svo að fólk fengi svigrúm til að bregðast við nýju reglunum en frá og með morgundeginum verður sektum beitt. Í tilkynningu Ríkislögreglustjóra segir að ákveða þurfi sektarfjárhæð með tilliti til alvarleika brotanna.

„Ljóst er að brotin geta verið afar mismunandi og þar með mis alvarleg. Þá er ljóst að í sumum tilvikum kann háttsemin að vera það alvarleg, einkum varðandi brot gegn reglum um einangrun, að háttsemin eigi undir ákvæði 175. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ákæra fyrir brotið,“ segir í tilkynningunni.

Sem dæmi má nefna að sakborningur geri nokkurn hóp manna útsettan fyrir sýkingu eða sýki hóp manna af COVID-19 og enn alvarlegra ef um er að ræða að útsetja eða sýkja þá sem eru í sérstakri hættu vegna undirliggjandi sjúkdóma.“

Líkt og áður segir þurfa allir sem koma til landsins að fram­vísa nei­kvæðu PCR-prófi áður en haldið er til Ís­lands en fram til 1. maí verður einnig farið fram á tvö­falda skimun. Eftir þann tíma munu PCR-prófin taka al­farið við.

Uppfært:

Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að þeir sem vísuðu ekki neikvæðu PCR-prófi yrðu sektaðir um 50 þúsund krónur en hið rétta er 100 þúsund krónur. Hér fyrir neðan má nálgast fyrirmæli Ríkislögreglustjóra.

Brot gegn reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 161/2021 um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19:

Brot gegn skyldu til að fara/vera í sóttkví, 3. gr. og 1. mgr. 4. gr.

Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

Brot gegn skyldu til að framvísa vottorði á landamærastöð og við byrðingu sem sýnir fram á neikvætt PCR-próf sem er ekki eldra en 72. klst. við byrðingu, 1. mgr. 4. gr.

Sekt kr. 100.000

Brot gegn skyldu til að fara í sýnatöku á landamærastöð, 1. mgr. 4. gr.

Sekt kr. 100.000

Brot gegn skyldu til að dvelja í sóttvarnarhúsi og skyldum sem einangrun í sóttvarnarhúsi felur í sér, 5. gr.

Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

Brot gegn skyldum þeirra sem eru í sóttkví, 5. og 7. gr.

Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

Brot á reglum um einangrun, 1. og 2. mgr. 9. gr.

Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 150.000-500.000. Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots.

Brot gegn reglum skv. reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 190/2021 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar:

Brot á reglum um fjöldatakmörkun, 3. gr.

Sekt einstaklings sem sækir samkomu kr. 50.000.

Sekt forsvarsmanns/skipuleggjanda sem stendur fyrir samkomu kr. 250.000- 500.000.

Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots forsvarsmanns/skipuleggjanda.

Brot gegn skyldu til að tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum, 1. mgr. 4. gr.

Sekt forsvarsmanns/skipuleggjanda þeirrar starfsemi/samkomu sem um ræðir ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 100.000-500.000.

Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots. 3

Brot á reglum um notkun andlitsgrímu, 2. mgr. 4. gr.

Sekt forsvarsmanns þeirrar starfsemi sem um ræðir ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 100.000-500.000.

Sekt einstaklings sem notar ekki andlitsgrímu ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 10.000-100.000

Brot á reglum um takmarkanir á starfsemi vegna smithættu, 5. gr.

Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 100.000-500.000.