Bæja­stjóri í ítalska bænum Castena­so hefur bannað hár­greiðslu­fólki að þrífa hárið á við­skipta­vinum sínum oftar en einu sinni. Þetta gerir hann til þess að spara vatn í einni verstu hita­bylgju á Ítalíu í manna minnum. The Guar­dian greinir frá.

Bæjar­stjórinn, sem heitir Car­lo Gubellini, segir þúsund lítra fara til spillis á hverjum degi við það að þrífa hár við­skipta­vina tvisvar. Ef hár­greiðslu­fólk hunsar þessi til­mæli þá getur það búist við að fá 500 evrur í sekt, en það jafn­gildir um 70 þúsund ís­lenskum krónum.

Í Castena­so, bæ með um 16 þúsund íbúa, eru tíu hár­greiðslu­stofur. „Ef við marg­földum lítra­fjölda á hvern og einn kúnna, erum við komin með þúsundir lítra á dag,“ sagði Gubellini. Hann sagði um 20 lítra af vatni vera notaða til þess að þrífa hár á kúnnum tvisvar sinnum.

Reglurnar gilda fram að lokum septem­ber en Gubellini segir vel hafa verið tekið í þær. Þegar hár­greiðslu­stofur opnuðu í dag kom annað í ljós, „Þetta virðist svo­lítið fá­rán­legt,“ sagði ein hár­greiðslu­konan.