Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í gærkvöldi á þrettán veitingastaði í borginni til að kanna ástandið með tillit til tveggja metra reglunnar, rýmis og sóttvarna. Sjö veitingastöðum var gert að huga betur að sínum málum.

Einum veitingastað var sagt að loka, gestum gert að yfirgefa staðinn og skýrsla var skrifuð um brotið. Enginn veitingastaður var hins vegar sektaður í gær fyrir brot á sóttvarnarreglum en ákvörðun um slíkt gæti komið til seinna.

Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekki sé búið að ákveða hvort staðnum sem var lokað í gær fái sekt. „Það er ekkert komið í ljós með það. Skýrslan er gerð til að halda utan um upplýsingar. Síðan á bara eftir að ákveða hvað verður gert meira út frá skýrslunni,“ segir Guðmundur.

Veitingastaðurinn má opna aftur í dag og vonar Guðmundur að rekstraraðilar hans hafi farið eftir tilmælum lögreglu en eftirliti þeirra í bænum er hvergi nærri lokið.

„Það verður stöðugt eftirlit í gangi eins og allt annað eftirlit hjá lögreglunni. Þetta er bara rútínu verkefni,“ segir Guðmundur. 

Einum veitingastað var lokað. Í gærkvöldi fórum við á þrettán veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu til að kanna ástandið...

Posted by Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu on Wednesday, August 12, 2020