Niður­stöður liggja fyrir í kjör­bréfa­máli Al­þingis­kosninganna 2021 en greidd voru at­kvæði á Al­þingi nú rétt í þessu. Það fór svo að seinni talningin í Norð­vestur­kjör­dæmi var staðfest með 42 atkvæðum á móti fimm. Þá sátu 16 hjá.

Tillagan var lögð fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins sem sæti áttu í undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar.

Tillaga Þórunnar Sveinbjarnardóttur, Samfylkingu, og Svandísar Svavarsdóttur, Vinstri-grænum, um að staðfesta ekki kjörbréf Norðvesturkjördæmis og boða því til uppkosninga í kjördæminu var felld með 42 atkvæðum á móti 16. Fjórir sátu hjá.

Það sama á við um tillögu Björns Leví Gunnarssonar, Pírötum, en hann lagði til að engin kjörbréf yrðu samþykkt. Með því hefði verið boðað til uppkosninga á landinu öllu, en svo fór ekki því tillagan var felld með 53 atkvæðum gegn sex. Fjórir sátu hjá.

Fréttin hefur verið upp­færð.