Næstkomandi þriðjudag, 23. febrúar mun heilsugæslan bjóða öllum íbúum á höfuðborgarsvæðinu 90 ára og eldri, sem voru bólusettir 2. febrúar við COVID-19 í bólusetningu nr. 2 á Suðurlandsbraut 34. Hópurinn telur um 2.300 manns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilsugæslunni.

Boð um bólusetninguna verða send með SMS skilaboðum og fólk er beðið um að fylgja tímasetningu sem þar kemur fram.

Þau sem voru bólusett 2. febrúar en hafa ekki fengið SMS skilaboð geta komið á Suðurlandsbraut 34, milli klukkan 9:00 og 15:00 sama dag og fengið bólusetningu.

Alls hafa nú 10.074 einstaklingar verið fullbólusettir hérlendis en 5.570 hafa fengið fyrri sprautuna.