„Þetta er skýrasti dómurinn um frammistöðu fjármálaráðherra í þessari sölu að fyrirætlanir ríkisins eru í algjöru uppnámi í kjölfarið,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar um það ástand sem skapast hefur um seinkun á sölu á frekari eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.

Fram kom í fréttum í gær að frekari sala ríkisins á hlutum í Íslandsbanka muni ekki fara fram fyrr en búið sé að taka fyrir frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála og efnahagsráðherra á Alþingi þar sem leggja á fram breytingu á sölufyrirkomulagi.

Leggja átti frumvarpið fram í Nóvember en staðfest hefur verið að frumvarpinu seinkar og verður það ekki lagt fram fyrr en á vorþingi.

„Ég held að traustið sé farið hjá bæði fólkinu og ríkisstjórninni miðað við þá yfirlýsingu sem gefin var út í apríl, að sölunni yrði ekki haldið áfram fyrr en búið er að fara í endurskoðun á öllu. Að það eigi að leggja niður bankasýsluna og taka upp nýtt fyrirkomulag,“ segir Þorbjörg Sigríður en ríkisstjórnin hefur boðað frumvarp þar sem leggja á til að Bankasýslan verði lögð niður og komi hún þannig ekki að næstu sölu.

Vaxtagjöld í mikilli aukningu

Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði við Háskóla gaf í áliti sínu út að töf á sölu í bankanum myndi hafa lítil eða engin áhrif á rekstur ríkissjóðs eða á íslenskt hagkerfi en Þorbjörg Sigríður telur að skoða þurfi það betur.

„Veruleiki íslenska ríkisins er sá sami og íslenskra heimila í því samhengi hver vaxtakjörin eru. Vaxtagjöldin er sá fjármálaliður sem er að stækka hvað mest á milli fyrstu og annarrar umræðu. En ég hefði haldið að það væri alltaf markmiðið að stofna ekki til skulda, sé þess ekki þörf,“ segir Þorbjörg Sigríður en taka þyrfti lán fyrir um 76 milljörðum króna til þess að taka inn fjármagn í fjárlög fyrir 2023 sem gert hafði verið ráð fyrir vegna sölu í Íslandsbanka.

Í ræðu sinni á Alþingi kom Þorbjörg Sigríður inn á mikilvægi þess að huga að vaxtagjöldum sem hljótast af aukinni lántöku ríkisins:

„Við sjáum það rækilega núna þegar við erum komin í 2. umræðu um þetta frumvarp. Hvaða fjárlagaliður hefur hækkast mest? Eru það framlög til að styðja við innviði? Samgöngur? Húsnæðismál? Heilbrigðismál? Nei, það eru vaxtagjöld. Og staðan núna er sú að gjöldin nema um 100 milljörðum króna. Svimandi há vaxtagjöld veikja getu og burði ríkissjóðs til að fjárfesta í grunnþjónustu. Á það ekki að vera markmiðið að verja fjármunum í annað en vexti? Það dugar bara ekki í fjárlagapólitík að neita að ræða halla. Neita að ræða skuldir,“ sagði Þorbjörg Sigríður.

Ísland borgar hæstu vaxtagjöldin

Til þess að undirstrika hvers vegna vaxandi skuldsetning ríkisins skipti í raun máli segir Þorbjörg Sigríður að líta þurfi til þess að Ísland borgi ein hæðstu vaxtagjöld af VLF (vergri landsframleiðslu) í heiminum.

„Hvers vegna þessi mikla áhersla á þetta atriði? Jú, vegna þess að vaxtagjöldin á Íslandi eru mjög há í öllum samanburði. Ekkert annað OECD-ríki býr við eins há vaxtagjöld af VLF og Ísland, þó að skuldir séu víða hærri en hér,“ sagði Þorbjörg Sigríður í ræðu sinni í gær.

„Þetta þýðir að kostnaður þess að fjármagna rekstur ríkissjóðs með lántöku eins og hingað til hefur verið gert er meiri hér en annars staðar. Ríkissjóður hefur nú verið rekinn með halla frá árinu 2019 og útlit er fyrir að uppsafnaður halli áranna 2019-2023 muni nema um 780 milljörðum króna. Og gert ráð fyrir hallarekstri út árið 2027. Ríkissjóður rekinn með tapi í 9 ár samfellt. Það er saga þessarar ríkisstjórnar.“