Næsta skólaár munu nokkrir grunnskólar í Reykjavík taka þátt í rannsókn í Reykjavík í samvinnu við Embætti landlæknis, þar sem upphafi skólastarfs á morgnana verður seinkað, að líkindum til klukkan níu. Val á skólum til þátttöku í verkefninu stendur yfir. Doktor Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Betri svefns, segir tilgátuna þá að með slíkri breytingu aukist hamingja og námsárangur, ekki síst meðal unglinga.

Fréttablaðið fjallaði í gær um meðalsvefntíma íslenskra barna og unglinga. Ný rannsókn sýnir að fimmtán ára unglingar sofa aðeins um sex tíma á nóttu samkvæmt meðaltalstölum. Þetta þykir áhyggjuefni og hafa spjótin meðal annars beinst að upphafi skólastarfs á morgnana, ekki síst nú þegar svartasta skammdegið er fram undan. Erla segir að allar erlendar rannsóknir sýni svart á hvítu hve mikilvægt sé að auka svefntíma unglinga með því að seinka upphafi skólastarfs. Sömu rannsóknir sýni að börn fari ekki seinna að sofa þótt skólastarf færist aftar á morgnana.

Erla segir mikilvægt að fræða börn markvisst í skólum um mikilvægi svefns. Fyrir sé fræðsla um til dæmis næringu og hreyfingu. Nú sé tímabært að setja svefnmálin á oddinn. „Við höfum þá trú að samfélagsleg inngrip geti skipt mjög miklu máli.“

Meðal áskorana ef opnunartími skóla færist varanlega til eru breytingar sem mögulega þyrfti að gera á tómstundum barna svo eitt sé nefnt. Þá hafa sumir foreldrar sem rætt hefur verið við lýst áhyggjum af því ef hinir vinnandi á heimilum fari mun fyrr af stað en börnin. Erla telur þó að slíkar áskoranir megi leysa, enda miklir hagsmunir undir.