Halldóra Mogensen, þingaður Pírata, viðurkenndi á Alþingi í kvöld að síðasta þing hefði verið henni erfitt. Umræður voru á Alþingi í kvöld eftir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína. 

„Er það mikið vegna þeirra væntinga sem ég hafði til starfsins og fólksins hér inni og þeirra vonbrigða sem ég upplifði þegar ég áttaði mig á því að mikilvægu málefnum yrði fórnað í nafni stöðugleikans,“ sagði Halldóra.

Endalaust strit og sívaxandi neysla

Halldóra sagði meðal annars að vaxtarkerfið hefði skapað ákveðna tálsýn um endalausan auð og að mikilvægt væri að tryggja hér samheldið, fjölbreytt og kærleiksríkt samfélag, sem væri ekki raunveruleikin hér á landi í dag. „Ekki á meðan við búum við efnahagskerfi sem er háð linnulausum vexti hagkerfisins og drifið áfram í mörgum tilfellum af láglaunuðu striti og sívaxandi neyslu almennings.“

Niðurskurður í menntamálum leiðir af sér glæpi

Þá minnti hún þjóðina á að tími væri vanmetin auðlind og lagði til að farið væri að skoða fjárlög heildrænt. 

„Sparnaður í félagsmálum og umhverfismálum felur í sér aukinn heilbrigðiskostnað og niðurskurður í menntamálum leiðir af sér aukna glæpi og misnotkun vímuefna á meðan að fjármagnið sem við nýtum til að stuðla að heilbrigðara samfélagi með betri skólum, bættri heilsu, félagslegri samheldni og dafnandi vistkerfi er fjárfesting í hamingjusamara samfélagi sem skilar sér margfalt til baka.“