„Kæra þjóð. Hér áttum við að heyra stefnu­ræðu for­sætis­ráð­herra. En í staðinn fengum við varnar­ræðu ríkis­stjórnarinnar. Upp­fulla af rétt­lætingu yfir því að ráð­herrarnir fóru þvert gegn eigin yfir­lýsingum í upp­hafi far­aldursins um að gera meira en minna,“ sagði Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, for­maður Við­reisnar, í um­ræðum um stefnu­ræðu for­sætis­ráð­herra í kvöld.

„Þessi varnar­ræða veitti þjóðinni ekki leið­sögn og von um það hvernig við förum út úr þessum erfið­leikum, hvernig á að taka utan um fólkið okkar fé­lags­lega, efna­hags­lega og and­lega. Hvernig halda á lífinu í litlu og meðal­stóru fyrir­tækjunum, verja störfin, standa með atvinnulífinu“ hélt Þor­gerður á­fram. „Ræðan sendi ekki skila­boð til Suður­nesjanna þar sem at­vinnu­leysi er nú um 20 prósent, til unga fólksins sem á erfiðara en áður að fá vinnu, til lista­manna sem fótum hefur verið kippt undan eða ein­yrkja.“

Þorgerður sagði þá að ríkis­stjórnin væri að falla á tíma: „Bráða­vandi heimilanna og lítilla fyrir­tækja er núna. Á þessari stundu. Á fyrsta degi eftir mánaða­mót. Og við upplifum að allt sam­ræmi vantar á milli sótt­varna­ráð­stafana og efna­hags­á­kvarðana. Ef stóru skrefin verða ekki tekin strax þá er ríkis­stjórnin að bjóða þjóðinni upp á lang­varandi kreppu. Það er ó­boð­leg for­gangs­röðun.“

Þor­gerður gaf þá lítið fyrir auð­linda­á­kvæði sem ríkis­stjórnin vill koma fyrir í stjórnar­skránni og sagði það ekki breyta neinu. „Stjórnar­flokkarnir og Mið­flokkurinn, hafa lofað út­gerðinni að koma á­kvæði án tíma­bindingar veiði­réttar í gegn. Til­lagan sem nú liggur fyrir er merkingar­laus.“

Að lokum ræddi hún stöðu krónunnar miðað við er­lendan gjald­eyri: „Verð­bólgan hefur tvö­faldast. Matar­karfan hefur snarhækkað. En gjald­miðilinn, hann má bara ekki ræða. „Ekki núna - seinna“ segja ríkis­stjórnar­flokkarnir og fylgitungl þeirra. En þá spyr ég: hve­nær? Hve­nær má ræða eitt mesta hags­muna­mál al­mennings, stöðug­leika heimils­bók­haldsins?“ spurði hún. „Hvers vegna mega stórfyrir­tæki gera upp í er­lendri mynt meðan heimilin eru látin taka á­hættuna af krónunni? Af hverju erum við með gjald­miðil sem er bara fyrir suma en ekki alla? Er ekki sönnunar­byrðin á þeim sem standa gegn breytingum og gleymum ekki að sam­fé­lag snýst um fólk, ekki kerfi eða hags­muni fárra. Og um þetta munu næstu kosningar snúast.“

Morgunútgerðarblaðið

Því næst beindi Þor­gerður spjótum sínum að stjórnar­liðum Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri grænna. Sagði hún það duga lítt fyrir þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins að skrifa reglu­lega sín af­láts­bréf í ríkis­styrkt Morgunút­gerðar­blað til að firra sig á­byrgð að út­gjalda­þenslu síðustu ára sem þó er öll á vakt flokksins.“

Þá sagði hún Sjálf­stæðis­menn „þramma hingað niður á þing og greiða í­trekað greiði í­trekað at­kvæði gegn frelsis­málin eigin orðum og grund­vallar­hug­sjónum sem voru kannski ekki hug­sjónir þeirra eftir allt saman.“

„Það sama má segja um stjórnar­liða Vinstri grænna sem segjast standa fyrir grænni fram­tíð en kjósa síðan með blárri for­tíð,“ sagði Þor­gerður þá. „Þetta er flokkurinn sem segist vera á móti hval­veiðum og vill upp­færa sjávar­út­vegs­kerfið en gerir ekkert í því, ekkert. Flokkurinn sem segist vilja mæta flótta­manna­vandanum af mann­úð en hefur bara sýnt hið gagn­stæða.“

„Við vitum að það mun ekki breytast á þessari vakt þessarar ríkis­stjórnar. Þessum sýndar­veru­leika verður að ljúka. Tjöldin eru að falla og þá er mikil­vægt að þjóðin sjái hvað raun­veru­lega býr að baki.“