Anna Kolbrún og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmenn Miðflokksins voru gestir í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar ræddu þau upptökurnar á Klaustri sem teknar voru þann 20. nóvember þegar þau sátu þar að sumbli ásamt fjórum öðrum þingmönnum. 

Þau ræddu stöðu sína á þingi og brugðust við könnun Fréttablaðsins þar sem kom fram að flokkurinn fengi aðeins 4,3 prósenta fylgi væri kosið í dag og þar með enga menn inn á þing. Í könnuninni kemur einnig fram að 90 prósent þeirra sem tóku þátt telja að þingmennirnir eigi að segja af sér.

Sjá einnig: Könnun Frétta­blaðsins: Mið­­flokkurinn næði ekki manni inn

Anna Kolbrún greindi frá því í viðtalinu að hún ætli ekki að segja af sér og að hún ætli að halda sæti sínu í velferðarnefnd.

Í viðtali við Bítið sagði hún ferlið við ákvörðun sína hafa verið flókið og margslungið. Hún sagði að hefði hún sagt af sér hefði hún verið að „taka skellinn“ fyrir orðræðu karlmanna, líkt og konur oft geri.

Hefði verið auðveldast að fara

Hún sagði að það hefði verið auðveldast að fara, en hefði hún gert það hefði hún samt sem áður þurft að lifa með þessu. Hún sagði að málið væri komið í ferli í þinginu og hún myndi þurfa að endurskoða stöðuna samhliða því ferli.

Þau voru bæði spurð út í niðurstöður könnunar um að þau segi af sér og hún segir að hún hafi velt því fyrir sér og finnist ekkert skrítið að fólki finnist það. Hún sagði að það væru dæmi um að konur fari við slíkar aðstæður, en eigi sér samt sem áður engar málsbætur.

Hún sagði að hún yrði að læra af stöðunni og það geri hún með því að halda áfram að vera, ekki með því að fara.

Spurð hvernig henni hafi liðið á Klaustri sagði hún að hún hefði gert það sem hún gerir oft, hún hefði þagað og hún hefði átt að fara fyrr.

„Mér leið ekkert vel með það,“ sagði Anna Kolbrún.

Anna Kolbrún sagði að það væri mjög „sérstakur kúltúr á Alþingi“ að þegar maður byrji á nýjum vinnustað þá sogist maður inn í þann kúltúr. Hún telur að það sé ekki þingmönnum að kenna, heldur sé það vinnustaðurinn sjálfur, stofnunin Alþingi.

Ætlar ekki að segja af sér

Sigmundur Davíð sagði að hann ætlaði að nota þessi mistök til að bæta sig og notaði þá samlíkingu þegar knattspyrnumenn skori sjálfsmark til að útskýra hversu mikinn hvata flokkurinn hefur nú til að bæta sig.

Hann sagðist einnig ætla að sitja áfram og að hann sjái ekki ástæðu til að segja af sér í kjölfar málsins.

Hann sagði að þingflokkur Miðflokksins hafi einsett sér núna að vera til fyrirmyndar og vonaðist til þess að af þessu komi eitthvað gott.

Sigmundur ræddi, líkt og hann hefur gert áður, að hann hafi áður setið við slíkar aðstæður áður þar sem aðrir hafi rætt fólk á svipaðan hátt og þau gerði á Klaustur bar og að konu hans hafi svo misboðið að hún hafi gengið út úr slíkum samkvæmum. Hann sagðist vonast til þess að þessi reynsla hafi þau áhrif að slíkur kúltúr breytist.

Spurður hvernig hann sjái fram á að geta unnið með því fólki sem þau ræddu sagði Sigmundur: 

„Ég hef það langa reynslu af því að vinna með fólki sem að hefur sagt mjög ljóta hluti um mig. Kallað mig ljótan, feitan, geðveikan.“

Hann sagði þau hafa gert það bæði opinberlega og á lokuðum fundum og sagði þau hafa kallað sig einræðisherra, líkt honum við fjöldamorðingja, sagt ótrúlega rætna hluti, hringt í kjördæmi og borið út sögur, heyrt brandara sem eru neðanbeltis.

„Það er eðli þessa vinnustaðar að þar verður fólk að vinna saman sem að er ekki alltaf sammála og jafnvel hefur lent í illindum,“ sagði Sigmundur

Gunnar Bragi og Bergþór góðir menn

Bæði voru þau spurð hvort Gunnar Bragi og Bergþór eigi að víkja og svöruðu þau bæði á þann veg að þeir séu að leita sér aðstoðar og að þeir ættu að meta stöðu sína sjálfir. Sigmundur sagðist treysta þeim til að vinna í sínum málum sjálfum því þær væru góðir menn.

„Þetta eru góðir menn sem fóru langt, langt fram úr sér hvernig þeir töluðu,“ sagði Sigmundur og sagði það eflaust hafa komið þeim mest á óvart sjálfum þegar þeir heyrðu hvernig þeir töluðu um annað fólk á Klaustri.

Sigmundur sagði að það ætti ekki að dæma innræti þeirra út frá upptökunum og hegðun þeirra á barnum.

Spurður út í afstöðu sína til niðurstöðu könnunar Fréttablaðsins um að hann ætti að víkja og segja af sér, sagði Sigmundur að ef hann hefði ávallt hlustað á slíkar niðurstöður hefði ekki orðið mikil þróun hjá honum í pólitík.

Hann sagðist þakklátur fyrir þá sem styðja flokkinn í könnuninni og sagði þau sýna mikið hugrekki að standa með þeim.

„Ég hef lent í ýmsu á mínum pólitíska ferli en það hefur aldrei þyrmt eins mikið yfir mig og í þessu máli þegar það rann upp fyrir manni hversu margt fólk, fólk sem er jafnvel utanaðkomandi á þinginu, hefur orðið fyrir miklum særindum vegna þess sem þarna birtist og er sett fram,“ sagði Sigmundur.

Hann sagði verstu tilfinninguna sem fylgi málinu vera samviskubitið gagnvart fólkinu sem talað var um á upptökunum og fullyrti að þeir Gunnar Bragi og Bergþór liði miklar kvalir hvernig þeir töluðu um annað fólk.

Viðtalið sem er ítarlegra er hægt að hlusta á í heild sinni hér.