Jón Gunnars­son dóms­mála­ráð­herra leitaði til stjórnar­and­stöðunnar til að liðka fyrir því um­deilt frum­varp hans um breytingar á út­lendinga­lögum verði sam­þykkt fyrir þing­lok.

Þrír flokkar, Sam­fylkingin, Við­reisn og Flokkur fólksins, hafa orðið við óskum Jóns og sendu honum í gær til­lögur sínar um breytingar á frum­varpinu.

„Það var auð­vitað fyrir­séð að þetta yrði þyngsti hlutinn í þing­loka­samningunum þannig að ég held að Jón hafi haft frum­kvæði að þessu og viljað finna ein­hverjar leiðir með stjórnar­and­stöðunni til þess að semja að ein­hverju leyti um frum­varpið,“ segir Sig­mar Guð­munds­son, þing­maður Við­reisnar og á­heyrnar­full­trúi í alls­herjar- og mennta­mála­nefnd þar sem frum­varpið er til með­ferðar.

Sigmar segir tillögur flokkana þriggja þátt í viðleitni til að liðka fyrir samningum um þinglok en samkvæmt starfsáætlun þingsins á vorþingi að ljúka á föstudaginn.

Telur flokkana ekki vera að bjarga VG fyrir horn

Á síðustu vikum hafa þing­menn stjórnar­and­stöðunnar reglu­lega mót­mælt frum­varpinu á þingi og ekki að­eins þing­menn stjórnar­and­stöðu því út­lendinga­málin eru ekki síður um­deild innan stjórnar­flokkana.Þegar um­rætt frum­varp var af­greitt úr ríkis­stjórn og þing­flokkum stjórnar­flokkana höfðu þing­menn Vinstri grænna sett fyrir­vara við stuðning við málið. Því hefur ekki verið ljóst hvort meiri­hluti væri fyrir af­greiðslu frum­varpsins og það hefði yfir höfuð verið af­greitt úr nefnd ó­breytt.

Inntur eftir því hvort stjórnarandstaðan sé með þessu að bjarga dómsmálaráðherra og forsætisráðherra fyrir horn í erfiðu máli, segir Sigmar að fyrir liggi að stjórnar­flokkarnir standi allir að baki frum­varpinu.

"Það liggur alveg fyrir að Vinstri græn sem hafa hingað til mest verið á móti þessu, eru ekkert að fara að setja sig gegn því að málið verði af­greitt,“ segir Sig­mar og bætir við: „Það eru bara fjórir flokkar í stjórnar­and­stöðu sem eru and­vígir þessu frum­varpi. Ríkis­stjórnin er öll um borð.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leitaði Jón Gunnarsson fyrst til formanns Samfylkingarinnar með umleitanir sínar vegna málsins.

Fúsk segja Píratar og taka ekki þátt

At­hygli vekur að Píratar hafa á­kveðið að eiga ekki aðild að þessari mála­miðlun stjórnar­and­stöðu­flokkana og Jóns Gunnars­sonar.

Sam­kvæmt heimildum blaðsins áttu þau kost á því að taka þátt og eiga aðild að mála­miðlun um frum­varpið en kusu að gera það ekki. Á­stæðan sé fyrst og fremst sú að Jón Gunnars­son sé ekki við­ræðu­hæfur um út­lendinga­mál.

„Að reyna að laga þetta frum­varp á ein­hverjum handa­hlaupum korter fyrir þing­lok er að okkar mati ó­á­byrgt. Fólk á flótta á betra skilið en að eiga í hættu á að fúskað sé með réttindi þeirra,“ segir Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata á Facebook fyrir stundu.

„Við Píratar teljum það aftur á móti ekki til þess fallið að skapa sátt um þessa vinnu að keyra í gegnum Al­þingi afar um­deilt frum­varp sem þrengir veru­lega að réttindum flótta­fólks og út­lendinga heilt yfir. Raunar verður að skoða allar til­raunir til að halda á­fram vinnu við um­rætt út­lendinga­frum­varp dóms­mála­ráð­herra sem vís­bendingu um að stofnun ráð­herra­nefndarinnar hafi verið til mála­mynda. Það getur ekki verið þáttur í því að auka mann­úð og vel­sæld út­lendinga að skerða réttindi þeirra á áður ó­þekktum skala,“ segir einnig í færslu Halldóru.

„Við erum svo­lítið upp við vegg vegna þess að VG virðist styðja þessa veg­ferð dóms­mála­ráð­herra“

Sig­mar segist ekki þekkja á­stæður þess að Píratar á­kváðu að taka ekki þátt í þessu. En hann segir þetta einu leiðina til að vinna fyrir þann hóp sem málið varði. „Það er meiri­hluti fyrir málinu. Stjórnar­and­staðan getur ekki breytt því,“ segir hann og bætir við:

„Við erum svo­lítið upp við vegg vegna þess að VG virðist styðja þessa veg­ferð dóms­mála­ráð­herra,“ bætir hann við.

Flestar tillögurnar frá mannréttindasamtökum

Sig­mar segir að breytingar­til­lögurnar séu að miklu leiti fengnar frá þeim mann­réttinda­sam­tökum sem veitt hafi um­sagnir um málið við þing­lega með­ferð þess.

Hann nefnir meðal annars Rauða krossinn og Am­ne­sty sem hafa harð­lega gagn­rýnt fjöl­mörg á­kvæði frum­varpsins. Hér má sjá umsagnir sem borist um málið.

„Frum­varpið ó­breytt er bara meiri­háttar skerðing á mann­réttindum fyrir fólk sem hingað leitar og við erum að vonast til að geta mildað mjög vont frum­varp með þessu,“ segir hann.

Þessi sátta­til­laga flokkana felur einnig í sér fyrir þann hóp sem hefur í­lengst hérna út af Co­vid og til stendur að flytja úr landi. Þannig að þau sem hafa dvalið hér í 12 og 18 mánuði eftir að niður­staða er komin í mál þeirra fái hér annars vegar efnis­með­ferð og hins vegar dvalar­leyfi á grund­velli mann­úðar­sjónar­miða.

Í hinu um­deilda frum­varpi dóms­mála­ráð­herra er meðal annars lagt til að þrengt verði að mögu­leikum fólks til fjöl­skyldu­sam­einingar og að Út­lendinga­stofnun verði heimilt að skerða eða fella niður rétt hælis­leit­enda til grunn­þjónustu eftir að á­kvörðun um brott­vísun liggur fyrir.

Tillögur flokkana að breytingum

Saman­dregið eru breytingar­til­lögur stjórnar­and­stöðu­flokkana eftir­farandi:

  1. Út­lendingar sem fengið hafa endan­lega synjun á um­sókn sinni um vernd njóti á­fram þjónustu þar til landið er yfir­gefið.
  2. Um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd njóti á­fram lág­marks­verndar stjórn­sýslu­laga um endur­upp­töku máls vegna nýrra gagna eða upp­lýsinga.
  3. Um­sækj­endur í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu fái um­sókn sína tekna til efnis­með­ferðar.
  4. Fallið verði frá því að aðrir en um­sækjandi geti verið valdir því að að um­sækjandi njóti ekki þeirra réttinda að fá mál sitt tekið til efnis­með­ferðar hafi hann dvalið hér lengur en 12 mánuði.
  5. Um­sóknir ein­stak­linga, sem fengið hafa vernd í öðru ríki, en hafa fengið um­sókn sína tekna til efnis­með­ferðar vegna við­kvæmrar stöðu sinnar eða tengsla við landið, sæti for­gangs­með­ferð
  6. Réttur kvóta­flótta­fólks til fjöl­skyldu­sam­einingar verði sam­bæri­legur og réttur annara sem hér hafa fengið vernd.
  7. Um­sækjandi um al­þjóð­lega vernd, sem ekki hefur tekist að endur­senda/brott­vísa til annars ríkis innan tveggja ára frá um­sókn, eigi kost á að sækja um dvalar­leyfi af mann­úðar­á­stæðum á­samt at­vinnu­leyfi.

Um síðast­nefndu til­löguna er vísað annars vegar til mann­úðar­sjónar­miða því ella þurfi fólk að lifa á jaðri sam­fé­lagsins árum saman þar sem ekki er hægt að flytja við­komandi af landinu og hins vegar til skil­virkni fyrir kerfið sem annars þarf að styðja við­komandi fjár­hags­lega um alla fram­tíð.

Covid-hópnum komið í skjól

Þá er að lokum sett inn í sátta­til­lögu flokkanna áður fram­komin til­laga um lausn fyrir þann hóp sem í­lengst hefur hér vegna CO­VID.

Til­lagan gerir ráð fyrir að sá dráttur sem orðið hefur á brott­flutningi vegna heims­far­aldursins, verði ekki sagður á á­byrgð um­sækj­enda sjálfra. Þannig njóti þau sömu réttinda og aðrir í sömu stöðu og fái þau sem hafa dvalið hér í 12 og 18 mánuði eftir að niður­staða er komin í mál þeirra fái hér annars vegar efnis­með­ferð og hins vegar dvalar­leyfi á grund­velli mann­úðar­sjónar­miða.