Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra leitaði til stjórnarandstöðunnar til að liðka fyrir því umdeilt frumvarp hans um breytingar á útlendingalögum verði samþykkt fyrir þinglok.
Þrír flokkar, Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins, hafa orðið við óskum Jóns og sendu honum í gær tillögur sínar um breytingar á frumvarpinu.
„Það var auðvitað fyrirséð að þetta yrði þyngsti hlutinn í þinglokasamningunum þannig að ég held að Jón hafi haft frumkvæði að þessu og viljað finna einhverjar leiðir með stjórnarandstöðunni til þess að semja að einhverju leyti um frumvarpið,“ segir Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar og áheyrnarfulltrúi í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem frumvarpið er til meðferðar.
Sigmar segir tillögur flokkana þriggja þátt í viðleitni til að liðka fyrir samningum um þinglok en samkvæmt starfsáætlun þingsins á vorþingi að ljúka á föstudaginn.
Telur flokkana ekki vera að bjarga VG fyrir horn
Á síðustu vikum hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar reglulega mótmælt frumvarpinu á þingi og ekki aðeins þingmenn stjórnarandstöðu því útlendingamálin eru ekki síður umdeild innan stjórnarflokkana.Þegar umrætt frumvarp var afgreitt úr ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkana höfðu þingmenn Vinstri grænna sett fyrirvara við stuðning við málið. Því hefur ekki verið ljóst hvort meirihluti væri fyrir afgreiðslu frumvarpsins og það hefði yfir höfuð verið afgreitt úr nefnd óbreytt.
Inntur eftir því hvort stjórnarandstaðan sé með þessu að bjarga dómsmálaráðherra og forsætisráðherra fyrir horn í erfiðu máli, segir Sigmar að fyrir liggi að stjórnarflokkarnir standi allir að baki frumvarpinu.
"Það liggur alveg fyrir að Vinstri græn sem hafa hingað til mest verið á móti þessu, eru ekkert að fara að setja sig gegn því að málið verði afgreitt,“ segir Sigmar og bætir við: „Það eru bara fjórir flokkar í stjórnarandstöðu sem eru andvígir þessu frumvarpi. Ríkisstjórnin er öll um borð.“

Fúsk segja Píratar og taka ekki þátt
Athygli vekur að Píratar hafa ákveðið að eiga ekki aðild að þessari málamiðlun stjórnarandstöðuflokkana og Jóns Gunnarssonar.
Samkvæmt heimildum blaðsins áttu þau kost á því að taka þátt og eiga aðild að málamiðlun um frumvarpið en kusu að gera það ekki. Ástæðan sé fyrst og fremst sú að Jón Gunnarsson sé ekki viðræðuhæfur um útlendingamál.
„Að reyna að laga þetta frumvarp á einhverjum handahlaupum korter fyrir þinglok er að okkar mati óábyrgt. Fólk á flótta á betra skilið en að eiga í hættu á að fúskað sé með réttindi þeirra,“ segir Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata á Facebook fyrir stundu.
„Við Píratar teljum það aftur á móti ekki til þess fallið að skapa sátt um þessa vinnu að keyra í gegnum Alþingi afar umdeilt frumvarp sem þrengir verulega að réttindum flóttafólks og útlendinga heilt yfir. Raunar verður að skoða allar tilraunir til að halda áfram vinnu við umrætt útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra sem vísbendingu um að stofnun ráðherranefndarinnar hafi verið til málamynda. Það getur ekki verið þáttur í því að auka mannúð og velsæld útlendinga að skerða réttindi þeirra á áður óþekktum skala,“ segir einnig í færslu Halldóru.
„Við erum svolítið upp við vegg vegna þess að VG virðist styðja þessa vegferð dómsmálaráðherra“
Sigmar segist ekki þekkja ástæður þess að Píratar ákváðu að taka ekki þátt í þessu. En hann segir þetta einu leiðina til að vinna fyrir þann hóp sem málið varði. „Það er meirihluti fyrir málinu. Stjórnarandstaðan getur ekki breytt því,“ segir hann og bætir við:
„Við erum svolítið upp við vegg vegna þess að VG virðist styðja þessa vegferð dómsmálaráðherra,“ bætir hann við.
Flestar tillögurnar frá mannréttindasamtökum
Sigmar segir að breytingartillögurnar séu að miklu leiti fengnar frá þeim mannréttindasamtökum sem veitt hafi umsagnir um málið við þinglega meðferð þess.
Hann nefnir meðal annars Rauða krossinn og Amnesty sem hafa harðlega gagnrýnt fjölmörg ákvæði frumvarpsins. Hér má sjá umsagnir sem borist um málið.
„Frumvarpið óbreytt er bara meiriháttar skerðing á mannréttindum fyrir fólk sem hingað leitar og við erum að vonast til að geta mildað mjög vont frumvarp með þessu,“ segir hann.
Þessi sáttatillaga flokkana felur einnig í sér fyrir þann hóp sem hefur ílengst hérna út af Covid og til stendur að flytja úr landi. Þannig að þau sem hafa dvalið hér í 12 og 18 mánuði eftir að niðurstaða er komin í mál þeirra fái hér annars vegar efnismeðferð og hins vegar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Í hinu umdeilda frumvarpi dómsmálaráðherra er meðal annars lagt til að þrengt verði að möguleikum fólks til fjölskyldusameiningar og að Útlendingastofnun verði heimilt að skerða eða fella niður rétt hælisleitenda til grunnþjónustu eftir að ákvörðun um brottvísun liggur fyrir.
Tillögur flokkana að breytingum
Samandregið eru breytingartillögur stjórnarandstöðuflokkana eftirfarandi:
- Útlendingar sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um vernd njóti áfram þjónustu þar til landið er yfirgefið.
- Umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti áfram lágmarksverndar stjórnsýslulaga um endurupptöku máls vegna nýrra gagna eða upplýsinga.
- Umsækjendur í sérstaklega viðkvæmri stöðu fái umsókn sína tekna til efnismeðferðar.
- Fallið verði frá því að aðrir en umsækjandi geti verið valdir því að að umsækjandi njóti ekki þeirra réttinda að fá mál sitt tekið til efnismeðferðar hafi hann dvalið hér lengur en 12 mánuði.
- Umsóknir einstaklinga, sem fengið hafa vernd í öðru ríki, en hafa fengið umsókn sína tekna til efnismeðferðar vegna viðkvæmrar stöðu sinnar eða tengsla við landið, sæti forgangsmeðferð
- Réttur kvótaflóttafólks til fjölskyldusameiningar verði sambærilegur og réttur annara sem hér hafa fengið vernd.
- Umsækjandi um alþjóðlega vernd, sem ekki hefur tekist að endursenda/brottvísa til annars ríkis innan tveggja ára frá umsókn, eigi kost á að sækja um dvalarleyfi af mannúðarástæðum ásamt atvinnuleyfi.
Um síðastnefndu tillöguna er vísað annars vegar til mannúðarsjónarmiða því ella þurfi fólk að lifa á jaðri samfélagsins árum saman þar sem ekki er hægt að flytja viðkomandi af landinu og hins vegar til skilvirkni fyrir kerfið sem annars þarf að styðja viðkomandi fjárhagslega um alla framtíð.
Covid-hópnum komið í skjól
Þá er að lokum sett inn í sáttatillögu flokkanna áður framkomin tillaga um lausn fyrir þann hóp sem ílengst hefur hér vegna COVID.
Tillagan gerir ráð fyrir að sá dráttur sem orðið hefur á brottflutningi vegna heimsfaraldursins, verði ekki sagður á ábyrgð umsækjenda sjálfra. Þannig njóti þau sömu réttinda og aðrir í sömu stöðu og fái þau sem hafa dvalið hér í 12 og 18 mánuði eftir að niðurstaða er komin í mál þeirra fái hér annars vegar efnismeðferð og hins vegar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.