Lög­reglu­yfir­völd í þremur ríkjum Banda­ríkjanna, í Flórída, Connecticut og Ohio, hand­tóku öll menn um helgina sem ætluðu sér að fram­kvæma mann­skæðar skot­á­rásir, að því er fram kemur á vef CNN.

Um var að ræða þrjá unga menn sem ætluðu sér að fram­kvæma svipaðar skot­á­rásir og gerðar voru í borgunum Daytona í Ohio og í El Paso í Texas á sama degi í byrjun ágúst. 31 létust í þeim á­rásum og hefur Donald Trump, Banda­ríkja­for­seti, meðal annars kennt tölvu­leikjum um.

Í Connecticut var hinn 22 ára gamli Brandon Wags­hol hand­tekin eftir að hafa lýst yfir á­huga á því í Face­book færslum að fram­kvæma slíkar skot­á­rásir. Banda­ríska al­ríkis­lög­reglan, FBI, full­yrðir að maðurinn hafi reynt að kaupa skot­færi í sjálf­virkan riffil.

Þá var hinn 25 ára gamli Tristan Scott hand­tekinn á Daytona ströndinni í Flórída á föstu­daginn eftir að hann sendi fyrr­verandi kærustunni sinni röð skila­boða. Í skila­boðunum hótaði hann því að fram­kvæma slíka skot­á­rás og sagði meðal annars að „100 morð væru frá­bær,“ í skila­boðunum. Kærastan lét lög­regluna vita.

„Skóli er lé­legt skot­mark...ég myndi miklu frekar vilja skjóta á fólk úr fimm kíló­metra fjar­lægð...ég myndi vilja eiga heims­metið fyrir mestu fjar­lægðina,“ skrifaði hann jafn­framt.

Að lokum kemur fram í frétt CNN að hinn 20 ára gamli James Pat­rick Rear­don hafi verið hand­tekinn í Ohio fyrir að hafa hótað að ráðast inn í bæna­hús gyðinga í bænum Young­stown.

Eftir að hafa fengið leitar­heimild fann lög­reglan í bænum fjölda skot­vopna og byssu­kúlna á heimili hans. Rear­don hafði þá í­trekað lýst yfir gyðinga­hatri á sam­fé­lags­miðlinum Insta­gram og var hann hand­tekinn á heimili sínu og streittist ekki á móti.