Framkvæmdastjóri íslenskrar vefverslunar gengst við því að hafa hækkað verð á andlitsgrímum í kjölfar mikillar eftirspurnar. Verðbreytingin eigi sér þó eðlilegar skýringar.

Árvökull neytandi vakti athygli á því á Facebook að verð á 50 andlitsgrímum hjá Varnir.is hafi óvænt hækkað um þúsund krónur.

Mikil ásókn hefur verið í slíkar grímur í dag eftir blaðamannafund stjórnvalda þar sem hertar sóttvarnaraðgerðir voru kynntar.

Þar voru meðal annars gefin út þau tilmæli að fólk noti andlitsgrímur á almannafæri þar sem ekki sé hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga. Á það einna helst við um almenningssamgöngur og ýmsa aðra þjónustu.

Mynd sem deilt var á Facebook-hópnum Vertu á verði - eftirlit með verðlagi.
Mynd/Aðsend

Dugi ekki fyrir kostnaði

„Þær voru að hækka því við erum að reyna að ná þeim með hraðsendingu með flugi til landsins,“ segir Halldór Andri Árnason, framkvæmdastjóri Streymis heildverslunar, sem rekur Varnir.is.

Grímurnar hafi fljótlega selst upp og í kjölfarið verið reynt að fá aðra sendingu afhenta á morgun.

Hann bætir við að skiljanlega sé mikill munur á sendingarkostnaði vöru þegar hún er flutt með hraðsendingu í stað skipaflutninga.

„Þessi þúsund króna hækkun dugar ekki fyrir þessum aukakostnaði. Við vitum ekki einu sinni hvort við náum þessu á morgun, þetta er bara heiðarleg tilraun.“