Félagsstofnun stúdenta segir að engum íbúum Vetrargarða verði gert að flytja úr núverandi íbúð á meðan samningur er í gildi. „Hins vegar hvetjum við íbúa til að þiggja flutning og teljum ákjósanlegast að það sé fyrr en síðar þar sem ónæði verður óhjákvæmilegt í áfanganum sem verður í upptekt,“ segir í tölvupósti sem FS sendi á íbúa Vetrargarða.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Félagsstofnun stúdenta hafi sent tölvupóst á íbúa á Vetrargörðum að Eggerstgötu 6-8 um að þeir hafi mánaðarfrest til að flytja út vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Vetrargarður er fjölskylduhúsnæði Stúdentagarða en þar búa fjölmargir foreldrar í námi með börn í leikskólum og grunnskólum.

FS segir ýmislegt hafa komið fram í fréttum sem byggt væri á misskilningi og væri ekki efnislega rétt. Þau ætli að ræða nánar við íbúana og vinna úr athugasemdum og punktum sem hafa borist. „Það er alls konar misskilningur og kannski hlutir sem við hefðum þurft að skerpa betur á í þessum pósti, þannig við erum bara í því að svara þeim núna,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Stúdentagarða í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Skjáskot úr tölvupósti FS til íbúa Vetrargarða. „Þurfa þau sem búa í áfanga sem unnið er í að flytja tímabundið.“
„Ekki verður veittur leiguafsláttur vegna flutninga eða framkvæmda“

Ekkert minnst á viðhald í framkvæmdaáætlun

Eftir að málið komst í fjölmiðla sendi FS annan tölvupóst á íbúa um að það hafi staðið til að ræða nánar við íbúa á upplýsingafundi í febrúar. Þá hafi staðið til að kynna fyrir viðkomandi íbúum að vegna óþægindanna muni þeim standa til boða leigusamningur til ágúst 2022, óháð skráningu í háskólann, einingaskilum eða hámarksdvalartíma.

Íbúar hafa greint frá því að ekkert hafi verið minnst á viðhald eða viðgerðir í framkvæmdaáætlun þegar skrifað var undir samninginn. Tölvupósturinn kom öllum íbúum í opna skjöldu og er allir mótfallnir þessum aðgerðum enda gríðarlegt álag fyrir foreldra í námi að þurfa að standa í flutningum, þá sérstaklega fyrir þá sem þurfa að standa í verkefnaskilum, eiga ekki bíl, eða eiga börn með leikskólapláss í hverfinu.

„Því var það nú í janúar sem ákvörðun var tekin um að nýta þessar óvenjulegu aðstæður og ráðast í framkvæmdina í stað þess að úthluta húsnæðinu til nýrra umsækjenda á biðlista. Ef beðið er fram á haust þegar staðnám hefst að nýju gæti staðan orðið sú að erfitt yrði að útvega jafnmörgum húsnæði þar sem metfjöldi stundar nú nám við HÍ og búast má við að biðlistar lengist talsvert á ný.“ segir í tölvupósti sem var sendur á íbúa eftir að þau kvörtuðu yfir ákvörðun FS.

Allir sem búa í Vetrargörðum eru foreldrar í námi.
Mynd: Félagsstofnun Stúdenta

Valið er ekkert val

Þá vekur athygli að FS segir í tölvupósti til íbúa að þeim verði „ekki gert að flytja í dýrara húsnæði heldur taka þeir ákvörðun sjálfir um hverju þeir sækjast eftir.“

En íbúðirnar sem standa íbúum til boða eru annað hvort talsvert minni eða dýrari en núverandi íbúðir íbúa. Sambærilegar íbúðir fyrir fjölskylda í þriggja herbergja íbúð eru allar dýrari nema ein í Skógargörðum í Fossvogi. Aðrar eru stúdíóíbúðir eða paraíbúðir sem eru mikið minni. Ljóst er valið sé erfitt fyrir þessar fjölskyldur.

Þær íbúðir sem standa til boða eru 22 íbúðir á Skógarvegi, þar af 19 nýuppteknar og þrjár endurnýjaðar nýlega. Sjö íbúðanna eru þriggja herbergja og 15 tveggja herbergja. 19 íbúðir á háskólasvæði. Átta þeirra eru tveggja herbergja á Hjónagörðum, tvær tveggja herbergja á Vetrargarði, ein þriggja herbergja á Ásgörðum og átta tveggja herbergja paríbúðir á Eggertsgötu og Sæmundargötu.

„Íbúum verður ekki gert að flytja í dýrara húsnæði heldur taka þeir ákvörðun sjálfir um hverju þeir sækjast eftir. Uppsett leiguverð verður innheimt af húsnæðinu sem viðkomandi kýs að flytja í. Munum við leggja okkur fram við að koma til móts við íbúa og finna fyrir þá sambærilegar íbúðir á svipuðu verði í því hverfi sem þeir kjósa,“ segir FS.

Annað hvort verða íbúar að búa áfram í húsnæði sínu á meðan framkvæmdir standa yfir þrátt fyrir að ákvörðun hafi verið tekin í janúar og ekkert minnst á framkvæmdirnar í samingi, eða „velja“ það að flytja í aðrar og jafnvel dýrari íbúðir og greiða hærra verð fyrir.