Sölufélag Garðyrkjumanna hafnar því að gefið hafi verið í skyn í nýrri auglýsingu félagsins, að innfluttar gúrkur séu framleiddar úr klóakvatni. „Þetta soghljóð sem heyrist, það getur verið hvað sem er. Það er tvírætt og fólk getur túlkað það á ólíkan hátt,“ segir Kristín Linda Sveinsdóttir markaðsstjóri. Innflutningsaðili grænmetis, sem Fréttablaðið hefur rætt við segir að auglýsingin sé neðan beltis. Annar segir auglýsinguna bera vott um minnimáttarkennd. Það sé óþarft því íslenska varan sé frábær.

Auglýsingin var frumflutt á RÚV í gær, á meðan Eurovision stóð yfir. Í henni sést hvar kona í verslun tekur upp gúrku sem merkt er „imported“, sem þýðir innflutt á íslensku. Hún ber gúrkuna upp að eyranu og hlustar. Þá heyrist vatni sturtað niður, ekki ósvipað og um klósett sé að ræða. Konan fitjar upp á nefið og nánast fleygir gúrkunni frá sér.

Því næst tekur konan upp gúrku sem merkt er íslenskum garðyrkjubændum. Þegar hún ber hana upp að eyranu má heyra vatn renna, eins og lækjarsprænu, undir angurværum heiðlóusöng. Á sama tíma heyrist lesið: „Grænmeti sem ber merkið okkar er ræktað með hreinu íslensku vatni. Hvaða vatn fer í gegn um grænmetið þitt?“

Gúrkur bara fluttar inn þegar íslenskar gúrkur skortir

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins stendur íslensk framleiðsla á agúrkum undir langstærstum hluta markaðarins. Stöku sinnum komi skortur, eins og fyrr í vor eða vetur, og þá þurfi að flytja inn.

Auglýsingin fór ekki fram hjá þeim innflutningsaðilum grænmetis sem Fréttablaðið hefur rætt við. „Þetta er undir belti. Það er ótækt að gefa í skyn að menn séu að rækta grænmeti með klóaki í útlöndum,“ segir Eggert Árni Gíslason, framkvæmdastjóri Mata. Hann segist hafa hlegið að auglýsingunni en segir þó að þeir sem setji svona fram þurfi að rökstyðja mál sitt. Hann segir óumdeilt að íslenskt grænmeti sé gæðavara og að svona framsetning sé því óþörf.

Í svipaðan streng tekur forsvarsmaður Innnes, í samtali við Fréttablaðið. „Þetta er merki um minnimáttarkennd. Íslenskum framleiðendum stendur ekki ógn af þessu litla sem flutt er inn af gúrkum. Það þarf að bregðast við þegar það er skortur.“

Vita að skilaboðin eru ögrandi

Kristín hjá Sölufélagi garðyrkjumanna segir að auglýsingin sé sú fyrsta af fimm sjónvarpsauglýsingum sem sýndar verði í markaðsherferð fyrir Sölufélag garðyrkjumanna. Í henni verði lögð áhersla á hreinleika íslenska vatnsins, lágt kolefnisfótspor íslensk grænmetis, þá staðreynd að varnarefni séu ekki notuð við framleiðsluna, og síðast en ekki síst vinnuumhverfi og kjör þeirra sem á Íslandi vinna við grænmetisræktun. 

„Við vitum að þessi skilaboð eru ögrandi,“ segir hún um þessa fyrstu auglýsingu. „Við erum að vekja athygli á þeim eiginleikum sem íslenska grænmetið hefur upp á að bjóða. Við vitum að það er ræktað með hreinu íslensku vatni og grænmeti er 96 prósent vatn.“ Hún segir að víða um heim sé skortur á vatni og íslenskir neytendur geti illa vitað hvar vatnið sem er notað hefur legið.

Kristín segir að auglýsingin eigi að vekja fólk til umhugsunar um hvaða vatn fari í gegn um grænmetið sem það borðar. „Við erum ekkert að rúlla yfir innflutt grænmeti almennt, þó við notum þessa aðferð,“ segir Kristín.

Bannað að kasta rýrð á aðra vöru

Í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu er grein um samanburðarauglýsingar. Í fimmtándu grein segir að þær skuli, að því er samanburð varðar, uppfylla eftirtalið skilyrði, meðal annars: „ekki sé kastað rýrð á vörumerki, vöruheiti, önnur auðkenni, vöru, þjónustu, starfsemi eða aðstæður keppinautar, eða þeim sýnd lítilsvirðing.“

Í fjórtándu grein segir að óheimilt sé að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum.

Neytendastofa hefur ekki fengið kvörtun vegna umræddrar auglýsingar. Þær upplýsingar fengust að athugun á máli hefjist ekki fyrr en hagsmunaaðili sem telji á sér brotið kvarti.