„Viðbrögð við þessum mistökum eru farin að líkjast einelti,“ segir í yfirlýsingu stjórnar HSSK, Hjálparsveitar Skáta í Kópavogi. Innan sveitarinnar hafa einhverjir einstaklingar kallað eftir því að maður víki úr sveitinni sem fyrir mistök birti auglýsingu á síðu sveitarinnar sem í fólst boð í BDSM-partý.

„Innan þessa sjálboðaliðahóps starfa margir aðilar með misjafnan bakgrunn og áhugamál. Fólk stundar alls kyns íþróttir og áhugamál og mun stjórn HSSK ekki gera greinarmun á þeim áhugamálum, svo framarlega sem þau séu lögleg,“ segir í yfirlýsingunni.

Fram kemur að hún sé send út vegna kröfu félaga sveitarinnar um að manninum sem birti auglýsinguna í ógáti verði vikið úr sveitinni vegna sinna áhugmála og sýnileika hans á því sviði. „Fyrir mistök urðu hans áhugamál enn sýnilegri og í stutta stund í nafni sveitarinnar. Eftir samtal er stjórn þess fullviss að það var gert í ógáti og mun stjórn ekki aðhafast frekar vegna þess.“

Þá segir að viðbrögðin yfir þessum mistökum séu farin að líkjast einelti og þess vegna lýsi stjórnin stjórnin þessu yfir. „Í siðareglum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar er kveðið á um virðingu fyrir öðrum og eins, að við stundum ekki einelti eða áreitni.“ Þá er fólk kvatt til að kynna sér reglurnar.