Vél­stjóri nokkur sem var boðaður til skipsins gamla Herjólfs í dag neitaði að sigla í dag vegna verk­falls á­hafnar­með­lima sem eru í Sjó­manna­fé­lagi Ís­lands. Herjólfur er enn farinn af stað frá Vest­manna­eyjum en hann átti að sigla eina ferð frá Eyjum klukkan 09:30 og aðra klukkan 12:00.


Jónas Garðars­son, for­maður samninga­nefndar Sjó­manna­fé­lagsins, sagði þetta í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann sagði þá að sam­kvæmt sínum heimildum væri for­seti bæjar­stjórnar í Vest­manna­eyjum, Elís Jóns­son, kominn um borð í gamla Herjólfi til að skipið geti siglt en Elís er sjálfur vél­stjóri.

Eins og greint var frá í dag á­kvað fram­kvæmda­stjórn Herjólfs að sigla gamla Herjólfi fjórar ferðir til og frá Eyjum í dag þrátt fyrir verk­fall á­hafnar­með­lima sem eru í Sjó­manna­fé­laginu. Sjó­manna­fé­lag Ís­lands telur að um skýrt verk­falls­brot sé að ræða hjá fé­laginu.

Þegar Frétta­blaðið ræddi við Guð­bjart Ellert Jóns­son, fram­kvæmda­stjóra Herjólfs, í morgun gaf hann þó ekki þessa skýringu á töfum ferjunnar. Þá sagði hann að gamli Herjólfur hefði ekki getað siglt strax því hann hefði verið svo lengi kjur við bryggju.

Hvorki náðist í Elís Jóns­son né nokkurn sem er í for­svari fyrir fé­lagið Herjólf ohf. eftir að upplýsingar um vélstjórann bárust þrátt fyrir í­trekaðar til­raunir.