Kjörbréfanefnd landsfundar Sjálfstæðisflokksins hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna gagnrýni Unnar Berg­lindar Frið­riks­dóttur, for­manns Sjálf­stæðis­félagsins í Kópa­vogi, í garð nefndarinnar. Þar er því haldið fram að hún vegi ómaklega að starfsfólki flokksins.

„Ég hef fengið ,,hótunar“ símtöl frá jakkafataklæddum mönnum innan flokksins þar af einum háttsettum sem fór langt út fyrir sitt umboð í ljósi embætti síns.“ sagði Unnur Berg­lind meðal annars í færslu á Face­book-síðu sinni, þar sem hún segist styðja Guð­laug Þór í formannsslaginum, og því má ætla að gagnrýni hennar beinist að stuðningsfólki Bjarna Bene­dikts­sonar.

Í kjölfarið hafði DV eftir Unni að í tilvísuninni hér að ofan væri um Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra að ræða.

Í yfirlýsingu kjörbréfanefndarinnar er ásökunum Unnar vísað á bug og sagt að hún vegi ómaklega að starfsfólki Sjálfstæðisflokksins. Yfirlýsingin er stíluð á formann nefndarinnar, Brynjar Níelsson, sem er jafnframt aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar.

„Í færslu formanns Sjálfstæðisfélags Kópavogs er vegið ómaklega að starfsfólki Sjálfstæðisflokksins og látið í veðri vaka að það vinni fyrir einn frambjóðanda umfram annan. Kjörbréfanefnd vísar þessum fullyrðingum formannsins á bug.“ segir í tilkynningunni.

„Ekkert hefur komið fram við yfirferð kjörbréfanefndar á kjörbréfum sem bendir til annars en að starfsfólk Sjálfstæðisflokksins hafi unnið sín verk af ábyrgð og einurð við undirbúning fundarins.“ segir jafnframt í tilkynningunni, og þá segist nefndin harma að Unnur hafi séð tilefni til að gagnrýna nefndina og starfsfólk flokksins.