Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, krefst þess að félagsmálaráðuneytið „dragi tafarlaust til baka ráðagerðir" um „gerbreyttan útreikning á hlutdeild ríkisins í kostnaði við notendastýrða persónulega aðstoð, NPA.

Framkvæmdastjórinn segir í bréfi til Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, að það komi „sambandinu algerlega á óvart að ráðuneytið væri að boða til fundar þau sveitarfélög sem hafa NPA-samninga" eftir að áður hafi verið ákveðið að leysa úr ágreiningi í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum.

„Umrædd breyting samræmist hvorki gildandi lögum, reglugerð né viðtekinni framkvæmd við innleiðingu NPA allt frá 2012. Nái hún fram að ganga myndi það kollvarpa fjárhagslegum samskiptum vegna verkefnisins enda sætu sveitarfélög uppi með útgjaldaauka sem gæti numið allt að 100 milljónum króna á ársgrundvelli."

Karl segir sambandið krefjast þess að ráðuneytið draga þessar ráðagerðir til baka tafarlaust. „Má augljóst vera að útspil af þessu tagi - án nokkurs samráðs við sambandið - er til þess fallið að skaða traust og trúnað í samskiptum mili stjórnsýslustiga," undirstrikar framkvæmdastjórinn og óskar eftir því að þetta verði fyrsta mál á dagskrá næsta vinnufundar sem halda á 22. október.

Karl Björnsson framkvæmdastjóri SÍS.

Með bréfi framkvæmdastjórans fylgir minnisblað frá lögfræðisviði sambandsins. Er þar vitnað til fundargerðar frá 18. september. „Ráðuneytið segir það skýrt að NPA er ekki hugsað fyrir börn, en gæti mögulega átt við fyrir ungmenni. Mörg sveitarfélög eru að gera NPA samninga fyrir börn og kom það fram hjá velferðarnefnd Alþingis að innleiðing vegna NPA ætti ekki við um börn en sveitarfélögum yrði í sjálfvald sett að veita börnum NPA,“ er rakið úr fundagerðinni.

Lögfræðisvið sambandsins segir vilja löggjafans hvað varði NPA fyrir börn alveg skýran og vísar meðal annars til umfjöllunar velferðarnefndar Alþingis um frumvarpið sem varð að lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir:

„Nokkrir umsagnaraðilar lýsa yfir áhyggjum af því að ekki sé kveðið skýrt á um það í frumvarpinu hvort börn yngri en 18 ára geti fengið NPA-samninga eða ekki. Nefndin áréttar að ákvæði frumvarpsins varðandi NPA-samninga og rétt til þeirra nái til barna undir 18 ára aldri, til jafns við aðra.“