Sam­fé­lags­miðillinn Twitter hefur merkt nýjasta tíst Donald Trump Banda­ríkja­for­seta fyrir að upp­hefja of­beldi en Trump sagði í gær­kvöldi að herinn væri á leiðinni til Minnea­polis vegna stjórn­lausra ó­eirða í borginni. Í færslunni sagði Trump meðal annars; „Þegar ránin byrja, hefst skot­hríðin.“

Orð Trumps eru þau sömu og lög­reglu­stjóra í Miami á sjöunda ára­tugnum í kjöl­far ó­eirða í borginni en sagn­fræðingar og stjórn­mála­menn for­dæmdu orða­notkunina á sínum tíma. Fjöldi fólks til­kynnti færslu Trumps á Twitter og skömmu síðar merkti Twitter færsluna sem brot á reglum fyrir­tækisins.

„Þetta tíst brýtur gegn okkar reglum um upp­hafningu of­beldis út frá sagn­fræði­legu sam­hengi síðustu línunnar, tengingu hennar við of­beldi og hættuna að það gæti hvatt til svipaðra að­gerða í dag,“ sagði Twitter meðal annars um færsluna.

Færslunni verður þó ekki eytt en Twitter mat það sem svo að það væri mikil­vægt fyrir al­menning að geta enn séð færsluna vegna þeirra at­burða sem eru nú í gangi.

Stjórnlausar óeirðir

Fjöl­menn mót­mæli brutust út víða í Banda­ríkjunum vegna and­láts Geor­ge Floyd, 46 ára gömlum svörtum manni, en Floyd lést síðast­liðinn mánu­dag eftir að lög­reglu­maður kraup á hálsi hans við hand­töku og þrengdi að öndunar­veginum. Mynd­band af hand­tökunni fór í dreifingu á netinu í kjöl­farið og hefur vakið mikla reiði.

Mót­mælin hafa orðið sí­fellt stjórn­lausari þar sem mót­mælendur hafa kveikt í fyrir­tækjum og farið ráns­hendi um verslanir í borginni. Lög­regla hefur þurft að beita tára­gasi og skjóta gúmmí­kúlum að mót­mælendum en yfir­völdum í borginni hefur ekki tekist að ná stjórn á ó­eirðunum.

Gagnrýnir borgastjórann

Trump hefur verið harð­orður í garð borgar­stjóra Minnea­polis, Jacob Frey, fyrir við­brögðin við ó­eirðunum og hótaði meðal annars á Twitter að hann myndi senda þjóð­varð­lið inn í borgina ef Frey tækist ekki að ná stjórn á á­standinu.

Frey hefur for­dæmt skemmdar­verk og rán mót­mælenda en neitar því að hann hafi sýnt veik­leika í við­brögðum sínum og hefur ítrekað kallað eftir því að lögreglumennirnir í tengslum við málið verði ákærðir.