Banda­ríkja­for­seti Donald Trump hefur boðað til blaða­manna­fundar í Hvíta húsinu í dag þar sem hann ætlar að kynna að­gerðir stjórn­valda gegn kín­verskum yfir­völdum. Heimildir The New York Times herma að for­setinn ætli sér að láta ó­gilda vega­bréfs­á­ritun (visa) kín­verskra stúdenta í Banda­ríkjunum, sem hafa ein­hver tengsl við kín­verska kommún­ista­flokkinn.


Einnig er talið að hann muni beita við­skipta- og ferða­þvingunum en spenna milli heims­veldanna hefur magnast upp á síð­kastið. Trump hefur skellt allri skuld vegna kórónu­veirufar­aldursins á Kín­verja og þá hafa Banda­ríkja­menn gagn­rýnt kín­versk stjórn­völd fyrir nýja öryggis­lög­gjöf fyrir Hong Kong, sem sam­þykkt var í gær. Utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna hefur meðal annars sagt að Banda­ríkin geti ekki lengur litið Hong Kong sem sjálf­stjórnar­hérað eftir að lögin voru sam­þykkt.


„Við munum kynna hvað við ætlum að gera við Kína á morgun og við erum ekki sátt með Kína,“ sagði Trump við blaða­menn í gær. „Við erum ekki sátt við það sem hefur gerst. Um allan heim er fólk að þjást, 186 löndum. Það þjáist um allan heim. Við erum ekki sátt.“


Fjöldi banda­rískra há­skóla og vísinda­stofnana hefur nú gagn­rýnt á­form for­setans um að ó­gilda visa kín­verskra stúdenta í landinu eftir að New York Times greindi frá málinu í gær. Skólarnir óttast helst að Kín­verjar svari í sömu mynt og sendi banda­ríska stúdenta í kín­verskum skólum aftur heim.