Helga Gísladóttir, forstöðumaður Fjölmenntar, segir ekki mörg tækifæri til menntunar í boði fyrir fatlað fólk sem náð hefur 20 ára aldri. Í dag fer fram ráðstefnan Nám er fyrir okkur öll sem haldin er af Fjölmennt og þar verður fjallað um menntun og tækifæri fatlaðs fólks.

„Núna gefst öllum kostur á að fara í framhaldsskóla en að honum loknum eru tækifærin ekki mörg fyrir fatlað fólk,“ segir Helga. „Árið 1996 voru opnaðar starfsbrautir fyrir fatlaða í framhaldsskólum en gerðar voru athugasemdir við það hvað þessi hópur hefði að gera í framhaldsskóla. Nú held ég að engum dytti í hug að gera athugasemd við það, svo það er kominn tími til að taka næsta skref.“

Samkvæmt íslenskum lögum á fatlað fólk rétt til náms með viðeigandi stuðningi og í Háskóla Íslands er í boði starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun. Helga segir valkostina þó ekki fullnægjandi, til að mynda sé ekki í boði fyrir þann hóp að fara í almennt háskólanám eða í iðnnám.

Þórir Gunnarsson myndlistarmaður og Anna Rósa Þrastardóttir, nemi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti (FB), munu bæði fjalla um reynslu sína af skólakerfinu og þau tækifæri sem þeim standa til boða á ráðstefnunni í dag en Þórir og Anna Rósa eru bæði fötluð.

Ég heyri fólk tala um að ég hafi ekki tækifæri og að eftir framhaldsskóla sé ekkert meira og mér finnst það ósanngjarnt

Anna Rósa segist kunna vel við sig í náminu í FB og langa að fara í háskóla. „Mig langar að læra eitthvað tengt íþróttum, sundi eða bókum en ég er nýfarin að lesa mjög mikið,“ segir hún.

„Ég heyri fólk tala um að ég hafi ekki tækifæri og að eftir framhaldsskóla sé ekkert meira og mér finnst það ósanngjarnt,“ bætir Anna Rósa við.

Þórir er myndlistarmaður sem selt hefur fjölda verka og er vel þekktur undir listamannsnafninu Listapúkinn. Hann hefur meðal annars hlotið nafnbótina bæjarlistamaður Mosfellsbæjar og langar að mennta sig í myndlist.

„Ég sótti um í Listaháskóla Íslands árið 2021 og komst ekki inn,“ segir Þórir „Þau buðu mér í viðtal en af því ég er ekki stúdent átti ég að skrifa ritgerð og ég sagði bara nei,“ bæti hann við.

Hann segir ritgerðarsmíð ekki sína sterkustu hlið og telur að ekki hafi verið tekið tillit til fötlunar hans. „Ef þetta hefði ekki verið fötluð manneskja held ég að henni hefði verið hleypt inn en af því ég er fatlaður þá vilja þau ekki hleypa mér inn og mér finnst það ekki sanngjarnt,“ segir Þórir sem ætlar að sækja aftur um í ár.

Þau segjast bæði vel treysta sér í nám en þurfa að öllum líkindum aukinn stuðning. „Það ætti ekki að vera mikið mál að bregðast við því,“ segir Helga.

Fréttin hefur verið leiðrétt 30.3.22 klukkan 12:34. Þórir Gunnarsson var ranglega nefndur Gunnar í frétt á vef blaðsins og í Fréttablaðinu í morgun. Það hefur nú verið leiðrétt og biðst Fréttablaðið afsökunar á því.