Fagráð Aðstoðar eftir afplánun hjá Rauða krossinum lýsir yfir miklum vonbrigðum og verulegum áhyggjum vegna fyrirhugaðrar lokunar fangelsisins að Sogni en fjallað var um það í fjölmiðlum í vikunni að fáist ekki aukið fjármagn til fangelsiskerfisins þurfi að skera verulega niður.
„Fagráð verkefnisins Aðstoð eftir afplánun hjá Rauða krossinum lýsir yfir miklum vonbrigðum og verulegum áhyggjum vegna þessarar fyrirhuguðu lokunar,“ segir í yfirlýsingu frá fagráðinu þar sem þau hvetja ráðamenn til að endurskoða ákvörðun sína um að loka opna fangelsinu á Sogni.
„Við teljum að lokun á slíku opnu fangelsi muni hafa alvarlegar afleiðingar á einstaklinga í afplánun, aðstandendur þeirra og samfélagið allt.“
Í ályktuninni segir að verkefnið Aðstoð eftir afplánun snúi að stuðningi við þau sem eru að ljúka afplánun og að lögð sé áhersla á að það sé á ábyrgð allra að styðja við einstaklinga í afplánun og þau sem koma úr afplánun með von um aukin lífsgæði þeirra og aðstandenda.
„Við erum eindregið þeirrar skoðunar að styrkja verði þennan málaflokk með fjölbreyttum stuðningsúrræðum og auknu námsframboði á meðan á afplánun stendur. Innleiða þarf betrunarstefnu í málaflokkinn og fjölga þarf opnum úrræðum eins og á Sogni, Kvíabryggju og á Vernd en ekki loka þeim eða takmarka,“ segir í ályktuninni og að Íslend eigi að feta í fótspor nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum og auka möguleika dómþola á afplánun í opnun fangelsum og utan fangelsa eins og með samfélagsþjónustu.
„Mikilvægt er að einstaklingar séu í jákvæðum tengslum við fjölskyldu, börn sín og vini og eigi góðan möguleika á fjölbreyttum stuðningsúrræðum á meðan afplánun stendur. Rannsóknir sýna ítrekað að þau sem rækta fjölskyldutengsl, býðst að vera virk, stunda vinnu eða nám á meðan afplánun stendur gengur mun betur að fóta sig í samfélaginu eftir að afplánun lýkur og dregur það m.a. úr endurkomu í fangelsi. Fyrirhuguð lokun Sognar er ekki í takt við nýjustu rannsóknir og væri stórt skref aftur á bak í fangelsismálum á Íslandi.“
Fagráð Aðstoðar eftir afplánun hjá Rauða krossinum:
Arndís Vilhjálmsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur M.Sc
Auður Guðmundsdóttir, verkstjóri hjá Fangelsismálastofnun ríkisins.
Bjarnheiður P. Björgvinsdóttir, verkefnastjóri Aðstoðar eftir afplánun RKÍ.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.
Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Sigríður Ella Jónsdóttir, deildarstjóri Rauða krossins í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi
Svala Jóhannesdóttir, sérfræðingur í skaðaminnkun og fjölskyldufræðingur hjá Heilshugar.