Japönsk yfirvöld og Alþjóðlega ólympíunefndin ítrekuðu í dag skuldbindingu sína til að halda Ólympíuleikana í ár en þeim var frestað í fyrra vegna kórónuveirunnar. Þau þvertaka fyrir allar fréttir sem ganga um að það eigi að aflýsa leikunum. Í frétt Reuters um málið segir að yfirlýsingar þeirra muni varla duga til að róa almenning sem hafi miklar áhyggjur af því að halda slíkan viðburð í miðjum heimsfaraldri. Áætlað er að leikarnir hefjist 23. júlí á þessu ári.
Stór hluti Japans er á neyðarstigi en þar gengur yfir þriðja bylgja faraldursins eins og víða annars staðar í heiminum. Talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar sagði í dag að það væri „enginn sannleikur“ í frétt breskra miðla um að ríkisstjórnin hefði ákveði í leyni að aflýsa leikunum.
Í frétt breska miðilsins, Times, er vitnað í ónafngreindan heimildarmann í japönsku samsteypustjórninni sem segir að ríkisstjórnin sé að einbeita sér að því að tryggja að þau fái að halda leikana á næsta lausa ári sem er árið 2032.
„Við augljóslega neitum fyrir þessa frétt,“ sagði Manabu Sakai á blaðamannafundi í dag en hann er hátt settur embættismaður í Japan. Síðar sagði Yasuhiro Yamashita, yfirmaður japönsku ólympíunefndarinnar, að greinin væri tilbúin og að það væri „rangt og fáránlegt“ að þurfa að svara fyrir hana.
Fleiri embættismenn hafa einnig gert athugasemdir við fréttina og sagt hana valda sér miklum vonbrigðum.
Alþjóðalega ólympíunefndin sagði í yfirlýsingu að þau myndu gera ráðstafanir til að tryggja að leikarnir yrði öryggir og að gætt yrði að sóttvörnum.
