Stjórnsýsla

Segja tekjurnar af auglýsingum stjórna dagskrárstefnu RÚV

Forsvarsmenn stærstu einkareknu ljósvakamiðlanna segja framgöngu RÚV á markaði hafa mikil áhrif á afkomu og rekstrargrundvöll einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Ramminn utan um stofnunina þurfi að vera mun skýrari og setja frekari skorður við samkeppnisstarfsemi.

Auglýsingasala RÚV í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefur verið umdeild. Fréttablaðið/Ernir

Það er alveg ljóst, ef þessi auglýsingasala hjá RÚV er innan marka, þá þarf hið háa Alþingi að skilyrða rammann í kringum RÚV enn frekar en nú er gert,“ segir Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri hjá Sýn hf., um það frummat Samkeppniseftirlitsins að ekki séu vísbendingar um að RÚV hafi brotið gegn samkeppnislögum vegna umdeildrar auglýsingasölu RÚV í tengslum við HM í knattspyrnu.

„Staða RÚV á auglýsingamarkaði hefur áhrif á allt sem RÚV gerir og það má færa rök fyrir því að á meðan RÚV er drifið áfram af auglýsingatekjum sé stofnunin ekki að leggja höfuðáherslu á grunnskyldur stofnunarinnar,“ segir Björn og bætir við: „Auglýsingar á RÚV verða alltaf góð söluvara enda margir sem horfa á eina opna miðilinn sem nær fullkomlega til allra landsmanna gegnum öll dreifikerfi. Þeir ættu þess vegna vel að geta sætt sig við þrengri ramma og strangari skilyrði en aðrir á markaði. “

Magnús Ragnarsson, forstjóri Símans, tekur undir þetta. „Hjá BBC segja þeir: Við leyfum ekki auglýsingar af því að það mun hafa áhrif á dagskrár- og ritstjórnarstefnu miðilsins. Þetta hefur komið ótrúlega vel fram núna í tengslum við HM,“ segir Magnús og bætir við:

„RÚV 2 var sett á til að þar gætu verið íþróttaviðburðir og annað óreglulegt efni en hefðbundin dagskrá yrði ótrufluð á aðalrás RÚV. En svo er allt sett beint inn á aðalrásina af því þar fæst meira áhorf og meiri tekjur.“ Magnús vísar til þess hve hefðbundin dagskrá RÚV hefur riðlast vegna HM þrátt fyrir aukarásina.

„Hvernig hefur RÚV til dæmis staðið sig í að sýna fréttir á réttum tíma og hvað varð um barnaefnið? Barnaefninu hefur bara verið hent á meðan HM er af því auglýsingadeildin vill hafa alla leiki á aðalstöðinni. Það er auglýsingadeildin á RÚV sem stýrir í raun dagskrárstefnu stofnunarinnar.“

Magnús segir einkareknu ljósvakamiðlana ekki hafa gert skilyrðislausa kröfu um að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði í einu skrefi heldur verði gerð einhver áætlun þar að lútandi og látið verði af þessari aðgangshörðu sölu sem stunduð sé hjá RÚV.

„RÚV er með mjög öfluga vöru. Það þarf ekkert að deila um það. En er eðlilegt að þar sé líka rekin stærsta söludeild landsins sem hamast í hverju einasta bakaríi landsins ef Útsvarsliðinu gengur vel? Svo er líka skrítið að starfsmenn þessarar ríkisstofnunar séu drifnir áfram af bónusum. Þeir eru ekki bara á föstum launum heldur fá þeir bónusgreiðslur fyrir að ná áætlunum í sölunni.“

Aðspurðir segja Magnús og Björn samkeppnina við RÚV ekki eingöngu lúta að auglýsingamarkaði heldur hafi RÚV einnig keppt við einkastöðvarnar um afþreyingarefni.

„Nýjasta tilvikið sem við lentum í var Evrópumót kvenna í knattspyrnu 2017. Þar yfirbauð ríkið okkur og var með þannig tilboð að við höfðum ekki viðskiptalegar forsendur til að bjóða hærra en ríkið bauð með sínu skattfé,“ segir Magnús. Hann segir alla helstu einkaaðila á markaði hafa búið við það að vera yfirboðir af ríkinu og þessi fyrirferð RÚV á markaði hafi mest áhrif á stöðu einkareknu miðlanna.

Samkeppniseftirlitið hefur gefið aðilum á auglýsingamarkaði frest til 20. júlí til að senda inn athugasemdir áður en endanleg ákvörðun verður tekin um hvort eftirlitið hefji formlega rannsókn á háttsemi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði vegna HM í knattspyrnu.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Stjórnsýsla

Ólga meðal starfs­fólks Orku­veitu Reykja­víkur

Stjórnsýsla

Telja Þjóðgarðastofnun skerða rétt sinn

Stjórnsýsla

Upplýsingagjöf hins opinbera í vítahring vantrausts

Auglýsing

Nýjast

Vara­for­setar þingsins í stóla­leik

Leið­réttir mis­skilning um út­blástur Kötlu

Áfengisfrumvarp lagt fram á nýjan leik

The Chemical Brothers aflýsa tónleikum

Nota mynd­band af lík­flutningi í aug­lýsingu

Ævar vísinda­maður skaut Eddu og Jóni ref fyrir rass

Auglýsing