Samtök um líkamsvirðingu hafa gagnrýnt ummæli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem hún lét falla í grein sinn í Morgunblaðinu á mánudaginn. Samtökin segja ráðherrann kynda undir fitufordómum með því að taka feitt fólk út fyrir sviga.

Svandís kynnti fyrir ríkisstjórninni áætlum um aðgerðir til að draga úr sykurneyslu landsmanna á fundi ríkisstjórnarinnar síðasta föstudag. Ráðherrann birti svo grein í Morgunblaðinu á mánudaginn þar sem hún fjallaði nánar um aðgerðirnar sem gripið verður til.

„Þá hefur ítrekað komið fram að hlutfall of feitra er hátt á Íslandi og neysla á sykurríkum vörum eykur líkur á offitu og tannskemmdum og mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum getur auk þess aukið líkur á sykursýki af tegund 2,“ var meðal þess sem Svandís skrifaði í greininni.

Samtök um líkamsvirðingu birtu gagnrýni sína á orð Svandísar í Facebook-færslu í dag. Þar benda þau á að sykurskatturinn sem Svandís hefur boðað sé fyrsti liðurinn í aðgerðaráætlun vinnuhóps á vegum Landlæknisembættisins til að draga úr tíðni offitu. Í áætluninni er þó sérstaklega tekið fram að við innleiðingu aðgerðanna þurfi að gæta þess að þær auki ekki neikvæð viðhorf eða vanlíðan í tengslum við holdafar.

„Að ætla að taka feitt fólk út fyrir sviga til að fá stuðning við sykurskatt gerir lítið annað en kynda undir það bál fitufordóma sem þarf svo sannarlega ekki á auka brennivið að halda,“ segir í færslu samtakanna. Þá benda þau á að sykurskattur sé ekki aðeins til þess fallinn að bæta lýðheilsu feitra heldur allra Íslendinga af öllum stærðum og gerðum. „Of mikil neysla sykurs er ekki bara óholl fyrir feitt fólk.“

Hér má sjá færslu samtakanna á Facebook.

Að gefnu tilefni viljum við benda á að setning sykurskatts ætti að hafa í för með sér bætingu lýðheilsu allra...

Posted by Samtök um líkamsvirðingu - Association for Body Respect on Wednesday, June 26, 2019