Stjórn Landssambands lögreglumanna (LL) telur ákvörðun dómsmálaráðuneytis um að fara fram á alhliða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra löngu tímabæra. Þetta kemur fram í tilkynningu sem landssamband lögreglumanna sendi frá sér í kvöld.

Kvartanir lögreglumanna undan einelti ríkislögreglustjóra hafa verið til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu og hafa lögreglufélög um landið ályktað á fundum og skorað á formann Landssambands lögreglumanna að standa í lappirnar gagnvart ríkislögreglustjóra. Nú hefur LL sent frá sér opinbera tilkynningu.

„Um langt skeið hefur ríkt mikil óánægja meðal lögreglumanna með störf yfirstjórnar embættis ríkislögreglustjóra. Óánægja þessi er m.a. til komin vegna fatamála lögreglumanna sem hafa verið í ólestri en einnig vegna annarra mála s.s bílamála,“ segir í tilkynningunni.

Fréttablaðið greindi fyrst frá því í vor að mikillar óánægju gætti hjá lögregluumdæmum landsins með rekstur Bílamiðstöðvarinnar sem hefur verið starfrækt hjá Ríkislögreglustjóra frá aldamótum.

Landssamband lögreglumanna segir ljóst að lögregluembætti hafi þurft að greiða háar fjárhæðir til bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra vegna ökutækja lögreglu

Þá hafa málefni sérsveitar ríkislögreglustjóra verið til umfjöllunar og styður stjórn Landssambands lögreglumanna erindi þeirra sérsveitarmanna sem sent var dómsmálaráðaneyti til umfjöllunar. LL telur að ágreiningurinn bitni á þjónustu lögreglunnar á landsvísu.

„Stjórn Landssambands lögreglumanna telur að fái sá ágreiningur og sú gagnrýni sem beinst hefur að embætti ríkislögreglustjóra ekki skjóta úrlausn, muni það bitna á þjónustu við borgarana, öryggi þeirra og öryggi lögreglumanna á landsvísu. Slíkt ástand er til þess fallið að rýra traust almennings til lögreglu, sem lengi hefur haldist gott og dapurt væri að glata.“