Hæstiréttur Bretlands hefur nú til meðferðar ákvörðun Boris Johnson forsætisráðherra um fimm vikna þingfrestun eftir að dómstóll í Skotlandi úrskurðaði hana ólöglega. Johnson segist bera mikla virðingu fyrir dómstólnum og vill vita hver úrskurðurinn er áður en hann kallar saman þingið að nýju.

Kærendur í málinu eru 75 þingmenn stjórnarandstöðunnar. Fyrir dóminum í gær sögðu lögmenn þeirra að sterkar sannanir væru fyrir því að Johnson væri að reyna að þagga niður óánægjuraddir á þinginu með frestuninni, til þess eins að koma harðlínustefnu sinni um útgöngu án samnings þann 31. október í gegn.

Úrskurðurinn mun ekki hafa áhrif á útgöngudagsetninguna

Brenda Hale, forseti hæstaréttar og barónessa, ítrekaði áður en þinghald hófst að úrskurður réttarins, sem er væntanlegur á fimmtudag, myndi ekki hafa nein áhrif á útgöngudagsetninguna sjálfa. Þessi yfirlýsing Hale endurspeglar vel þá tregðu breska dómskerfisins til að snerta á útgöngumálunum. Dómarar vonuðust til þess að stjórnmálamenn gætu leyst málið sjálfir.

Ruth Davidson, fyrrverandi leiðtogi Íhaldsmanna í Skotlandi, greindi í viðtali við ITV frá ástæðu afsagnar sinnar sem var mikið áfall fyrir flokkinn. Davidson hefur mikið persónufylgi og vann stóran kosningasigur 2017, þrátt fyrir að flokkurinn hafi tapað á landsvísu.

Ég hef haft miklar efasemdir um Brexit

Upphaflegu ástæðurnar sem hún gaf voru persónulegar ástæður og að fjölskyldulífið samrýmdist ekki lífi stjórnmálamannsins. Hún hafði þá nýlega eignast barn með eiginkonu sinni. Marga grunaði hins vegar að ný stefna Boris Johnson væri ástæðan og Davidson staðfesti það í viðtalinu. Harðlínustefnan og þingfrestunin, sem nú er slegist um fyrir dómstólum, skipti þar mestu. „Ég hef haft miklar efasemdir um Brexit,“ sagði Davidson og að þessar efasemdir hefðu gert það að verkum að hún hefði ekki lengur treyst sér til að leiða flokkinn.

Gíra sig upp fyrir kosningar

Á meðan beðið er eftir úrskurði hæstaréttar um þingfrestun eru leiðtogar stjórnmálaflokkanna að gíra sig upp í kosningabaráttu. Einn þeirra er Jo Swinson, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, en hennar flokkur mun verða með skýra stefnu um að draga útgönguna til baka. Flokkurinn hélt nýlega landsþing sem Swinson lokaði með þeim orðum að flokksmenn þyrftu að „berjast upp á líf og dauða um hjarta og sál Bretlands“. Ekki aðeins þyrfti að berjast gegn útgöngunni sjálfri heldur einnig „hinum nýju popúlísku stjórnmálum“. Frjálslyndir demókratar hafa verið á mikilli siglingu undanfarna mánuði í könnunum og með skýrum skilaboðum vonast þeir til að geta sameinað þá sem kusu gegn útgöngunni árið 2016.

Hvort draumur Swinson um kosningasigur verði að veruleika eða ekki skal ósagt látið því að starfsmenn kjörstjórna hafa haft samband við ríkisstjórnina og viðrað áhyggjur sínar af snemm­búnum kosningum. Segja þeir kosningar með aðeins mánaðar fyrirvara óraunhæfar, bæði hvað varðar undirbúning, starfsfólk, fjármögnun og fleira. Einnig þyrfti að huga að utankjörfundaratkvæðum og Bretum búsettum erlendis. Áreiðanleiki kosninga með svo miklum flýti væri í hættu.