„Þetta er ó­boð­legt, herra for­seti,“ sagði Karl Gauti Hjalta­son, utan­flokks­þing­maður, við upp­haf þing­fundar í dag. Orðum sínum beindi hann til Stein­gríms J. Sig­fús­sonar, for­seta Al­þingis, og sakaði hann um að hafa meinað sér og Ólafi Ís­leifs­syni um þátt­töku í um­ræðum dagsins. 

Þing­fundur hófst klukkan 15 í dag á orðum Stein­gríms sem hvatti þing­menn til að sýna hvorum öðrum vin­semd í hví­vetna, en fundurinn í dag er sá fyrsti eftir jóla­frí. Karl Gauti og Ólafur voru báðir þing­menn Flokks fólksins fyrir jóla­frí, en voru reknir úr flokknum vegna orð­ræðu þeirra á Klaustur bar í lok nóvember. 

„Ekki ein einasta mínúta“ 

Karl Gauti og Ólafur fóru báðir þess á leit að fá að tjá sig um fundar­stjórn for­seta, áður en al­mennar um­ræður hófust. Þeir sögðust hafa farið fram á að fá, líkt og aðrir, að taka þátt í um­ræðum dagsins en ekki „fengið út­hlutað einni einustu mínútu“ í ræðutíma.  

„Ég kem hér upp undir fundar­stjórn for­seta til þess að benda á hið aug­ljósa. Ég er annar tveggja þing­manna sem með bréfi hinn þriðja desember síðast­liðinn til­kynnti for­seta að þeir hygðust starfa á þingi utan flokka og hafa með sér sam­starf. Og óskaði ég jafn­framt eftir því að sér­stakt til­lit yrði tekið til þessrar sam­stöðu okkar í störfum þingsins,“ sagði Karl Gauti og hélt á­fram: 

„Nú ber svo við að hér fara fram stjórn­mála­um­ræður. Við þessu erindi okkar frá þriðja desember höfum við engin svör fengið. Svar for­seta og for­sætis­nefndar til okkar liggur í augum uppi. Það verður og er ekkert til­lit tekið til þessa erindis. Og við þessa stjórn­mála­um­ræðu er okkur ekki út­hlutuð ein einasta mínúta.“ 

Þing­for­seti eigi að vera for­seti allra þing­manna 

Ólafur Ís­leifs­son tók í sama streng og sagðist lýsa furðu sinni að hafa ekki fengið að komast inn á mælenda­skrá, nema í and­svörum. „Ég á­fellist engan í þessu efni og alls ekki skrif­stofu Al­þingis. Ég bar þá von í brjósti að for­seti vildi vera for­seti allra þing­manna og greiddi honum því at­kvæði mitt í for­seta­kjöri. En ég hlýt að viður­kenna að á­kvörðun for­seta í dag, auk ýmis­legs annars sem við hefur borið að undan­förnu, hefur ekki styrkt þessa trú mína, Já, orð for­seta í ræðu sinni hér á undan um vin­semd og virðingu í sam­skiptum þing­manna vöktu at­hygli mína og ég þykist átta mig vel á inni­haldi þeirra,“ sagði Ólafur. 

Stein­grímur svaraði þessu og sagðist engar upp­lýsingar hafa fengið um þátt­töku þing­mannanna tveggja. „Þau skila­boð komust aldrei þangað þannig að þegar gengið var frá sam­komu­lagi um þessa um­ræðu á vett­vangi formanna þing­flokka lá engin slík beiðni fyrir. For­seti af þeim á­stæðum telur sig ekki geta horfið frá því sam­komu­lagi sem búið var að gera,“ sagði Stein­grímur. 

„En for­seti heitir hátt­virtum þing­mönnum því að þeirra réttur eins og hann er til staðar í þing­sköpum varðandi til að mynda um­ræður um stefnu­ræður for­sætis­ráð­herra, eld­hús­dag að vori og eftir at­vikum að öðru leyti að hann verður virtur,“ bætti hann við.