Stéttarfélagið Efling segir að fjölmargar tilkynningar hafi borist félaginu um að starfsfólk verði beitt þrýstingi til að sniðganga verkfallið á morgun eða ganga í störf starfsfólks í verkfalli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu í kvöld. Um sé að ræða verkfallsbrot.

Hótelþernur fara í verkfall á morgun en það stendur yfir í 14 tíma. Efling gagnrýnir harðlega þá hótelrekendur sem hafa í hyggju að stunda verkfallsbrot á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars.

Í tilkynningunni segir að margar tilkynningar hafi borist stéttarfélaginu í tengslum við atvkæðagreiðslu utan kjörfundar. Haft er eftir Valgerði Árnadóttur, starfsmanni félagssviðs Eflingar, að hún hafi heyrt margar slíkar frásagnir í vikunni. „Áhyggjufullir hótelstarfsmenn hafa tjáð mér að það séu uppi áform um ýmis brot, svo sem að hindra starfsmenn í að fara í verkfall sem þrífa almenningsrými og sinna þvottum. Sumstaðar er verið að boða starfsmenn sem almennt vinna ekki við þrif til að mæta fyrr og sinna þeim með herbergisþernum, bæði til að ná að klára þrif fyrir kl 10:00 og einnig eftir að verkfall hefst.“

Efling segist hafa sent hótelrekendum bréf á dögunum þar sem réttur fólks til þátttöku í verkfalli er áréttaður, ásamt skyldum atvinnurekenda. Verkfallsbrot séu brot á lögum. „Efling - stéttarfélag kallar eftir því að atvinnurekendur virði lög og réttindi starfsfólks.“