Heil­brigðis­ráðu­neytið segir stað­hæfingar sem komið hafa fram í opin­berum um­ræðum um meðal annars stór­felldan niður­skurð á Land­spítala og heil­brigðis­stofnunum á lands­byggðinni ekki eiga við rök að styðjast.

Farið er yfir stað­reyndir um heil­brigðis­stofnanir og fjár­veitingar til þeirra síðustu ár í frétta­til­kynningu frá Stjórnar­ráði Ís­lands en þar segir að fram­lög ríkisins til Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins hafi aukist um 24% á ára­bilinu 2017-2020. Aukning til Land­spítala hafi verið um 12% á sama tíma­bili, sem telur um 5,6 milljarða króna. Þá hafi um 8% aukning verið til Sjúkra­hússins á Akur­eyri og að meðal­tali 10% til heil­brigðis­stofnananna sex sem starfa um allt land. Aukin fram­lög til launa- og verð­lags­bóta á­samt þeim fram­lögum sem lögð hafa verið til byggingar­fram­kvæmda eru undan­skildar og er því að­eins m að ræða aukin fram­lög til heil­brigðis­þjónustunnar og reksturs hennar.

Aukning framlaga til Sjúkrahússins á Akureyri frá árinu 2017 hefur verið um 8%.
Mynd/Fréttablaðið

Áhersla hafi verið lögð á að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu

„Heilsu­gæslan hefur verið efld til muna með á­herslu á hlut­verk hennar sem fyrsta við­komu­staðar fólks í heil­brigðis­kerfinu. Í þeim efnum er Heilsu­gæsla höfuð­borgar­svæðisins einnig mikil­væg á lands­vísu og taka auknar fjár­veitingar mið af því. Innan hennar vé­banda starfar Þróunar­mið­stöð ís­lenskrar heilsu­gæslu, Þroska- og hegðunar­stöðin og ný­stofnað geð­heilsu­teymi fanga fyrir landið allt,“ segir í frétta­til­kynningunni.

Sam­kvæmt Heil­brigðis­ráðu­neytinu hafa aukin fram­lög sýnt glögg­lega hvernig heil­brigðis­þjónustan hafi mark­visst verið efld í sam­ræmi við stefnu­yfir­lýsingu ríkis­stjórnarinnar, meðal annars með eflingu heilsu­gæslunnar þar sem á­hersla hefur verið lögð á að jafna að­gengi lands­manna að heil­brigðis­þjónustu í heima­byggð.

„Það er því rangt sem haldið hefur verið fram að dregið hafi verið úr hlut­verki heil­brigðis­stofnana á lands­byggðinni, þvert á móti hafa þær stofnanir verið efldar til að gegna betur hlut­verki sínu við íbúa í heima­byggð.“

Í með­fylgjandi töflu má sjá prósentu aukningu og upp­hæð á ríkis­fram­lagi á milli áranna 2017-2020 sam­kvæmt fjár­lögum.

Landspítalinn hefur fengið 5.648 m.kr frá árinu 2017.
Mynd/Skjáskot