Fjöldi fólks kom saman á úti­fundi á Austur­velli í dag eftir að aðal­með­ferð máls sem þrír eldri borgarar höfðuðu gegn Trygginga­stofnun lauk í Héraðs­dómi Reykja­víkur. Lands­sam­band eldri borgara telur að skerðing ríkisins á elli­líf­eyri fólks sem fær greiðslur úr líf­eyris­sjóði, stangist á við stjórnar­skrá.

Helgi Péturs­son, for­maður Lands­sam­band eldri borgara sem skipu­lagði fundinn segir mál­tökuna vera tíma­mót.

„Við erum búin að standa í þessu í fjögur ár og loksins kom að þessu. Þetta er horn­steinninn í okkar kjara­bar­áttu, við erum að reyna að fá rétt­lætið fram, að þessar skerðingar á líf­eyri okkar séu bara ó­lög­legar og menn verði bara að taka á því,“ segir Helgi í sam­tali við frétta­stofu RÚV.

Þrír með­limir Gráa hersins svo­kallaða höfðuðu mál á hendur Trygginga­stofnunar fyrir hönd ís­lenska ríkisins vegna skerðinga á elli­líf­eyri og heimilis­upp­bót á móti greiðslum úr líf­eyris­sjóði.

Að sögn Lands­sam­bandsins nema skerðingarnar nærri 57 prósentum greiðslna úr líf­eyris­sjóði og sé tekið til­lit til tekju­skatts sé eigna­upp­takan nærri 73 prósentum. Sam­bandið segir þetta vera brot á 72. grein stjórnar­skrárinnar, en þar segir að eignar­rétturinn sé frið­helgur og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema al­mennings­þörf krefji. Til þess þurfi laga­fyrir­mæli og að fullt verð komi fyrir.

Lög­maður eldri borgara í málinu segir það flókið af ýmsum á­stæðum. Að baki því liggi gjör­völl saga líf­eyris­sjóða- og al­manna­trygginga­kerfisins síðustu sjö­tíu ár.

„Þetta er líka flókið vegna þess að hér reynir í fyrsta skipti á 72. grein stjórnar­skrárinnar með ná­kvæm­lega þessum hætti, þannig að vissu­lega er þetta flókið mál, það er ekki hægt að segja annað,“ segir Flóki Ás­geirs­son lög­maður Gráa hersins.

Einar Karl Hall­varðs­son ríkis­lög­maður sagði málið marg­þætt í sam­tali við frétta­stofu RÚV, en að mál­flutningur ríkisins byggði á því að kerfið sé stjórn­skipu­lega gilt.

Í stefnu málsins segir að með kerfi skyldu­líf­eyris­sparnaðar, sem komið var á fót með kjara­samningum árið 1969, hafi ætlunin verið að greiðslur úr líf­eyris­sjóði kæmu sem við­bót en ekki í stað al­manna­trygginga.

„Enda má spyrja, og það er auð­vitað gert í þessu máli, hverjar eru líkur þess að aðilar vinnu­markaðarins hefðu bundið sínar eigin hendur og hefðu lagt sína eigin fjár­muni til hliðar með þessum hætti ef þeir hefðu ekki vænst þess að njóta góðs af því heldur vera í raun bara að létta undir með ríkis­sjóði?“ segir Einar Karl.