Álag af völdum daglegra verkefna sem tengjast Covid-faraldrinum hefur farið langt yfir mörk sjúkraflutningamanna og er farið að gæta stress og þreytu í þeirra röðum, að sögn Magnúsar Smára Smárasonar, formanns LSS, Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Magnús Smári segir að frá upphafi faraldurs hafi sjúkraflutningamenn hjá sveitarfélögunum, sem tekið hafi að sér verkefni tengd faraldrinum, ekki fengið greiddar neinar álagsgreiðslur eða þeim verið umbunað sérstaklega fyrir þátttöku í baráttu gegn veirunni. Annað sé uppi á teningnum hjá sjúkraflutningamönnum sem starfi hjá ríkinu sem og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum hjá ríkinu. Sjúkraflutningamenn verði að upplifa að mikilvægi þeirra sé metið að verðleikum með því að ríkið veiti sveitarfélögunum fjármagn til að umbuna sjúkraflutningamönnum sveitarfélaganna með sambærilegum álagsgreiðslum og ríkisstarfsmenn hafi fengið hingað til. Að óbreyttu sé hætta á atgervisflótta úr stéttinni.

„Hæfir sjúkraflutningamenn liggja ekki á lausu, þetta er mjög sérhæft starf, við störfum utan spítalanna og oft með takmarkað aðgengi að læknum,“ segir Magnús Smári.

Magnús Smári segir þekkingu og reynslu sjúkraflutningamanna mjög dýrmæta.

Hann segir að krafa um bráðaaðhlynningu sé rík og þess vegna sé þekking og reynsla sjúkraflutningamanna mjög dýrmæt. „Við höfum séð hjá öðrum hópum heilbrigðisstarfsfólks sem vinnur við langvarandi álag að starfsmannavelta getur aukist hratt.“

Magnús Smári segir að heilbrigðisþjónustan sé ein keðja. Til að keðjan virki þurfi hver hlekkur að vera sterkur. Sjúkraliðar og bráðatæknar séu oft fyrstir á vettvang og sinni ómissandi verkefnum fyrir kerfið. „Það er mikilvægt að jafna þetta misrétti.“

Á fimmta hundrað sjúkraflutningamanna starfa á landinu, um 360 hjá sveitarfélögum en um 50 eru í fullu starfi hjá ríkinu og hefur sá hópur fengið álagsgreiðslur. Dæmi um síðarnefnda hópinn eru sjúkraflutningamenn heilbrigðisstofnana.