Fangi á Litla Hrauni óttast um líf sitt eftir að vinur hans fannst látinn í fangaklefa sínum. Segir hann samfanga sinn hafa fengið slæma meðferð í kjölfar hjartastopps.

Fréttablaðið greindi frá því í vikunni þegar fang­­­i á Litl­­­a-Hraun­­­i fannst lát­­­inn í klef­­­a sín­­­um. Ekki er tal­­­ið að and­l­­át­­­ið hafi bor­­­ið að með sak­­­næm­­­um hætt­­­i en málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Fanginn sem lést aðfaranótt 1. apríl hafði farið í hjartastopp fimm dögum áður að sögn tveggja fanga á Litla Hrauni sem Fréttablaðið ræddi við í dag. Að þeirra mati fékk fanginn sem lést ekki nauðsynlega hjálp eftir að hann var útskrifaður af sjúkrahúsi. Hann hafi verið úrskrifaður um leið og hann fékk meðvitund og í kjölfarið vistaður í einangrun, án eftirlits. Þeir segja hann hafa kvartað undan verkjum í aðdraganda andlátsins en enga aðstoð fengið.

Fanginn sem lést á Litla Hrauni var í einangrun án eftirlits eftir að hafa farið í hjartastopp fimm dögum áður og kvartað undan verkjum og doða í handlegg að sögn samfanga hans.
Fréttablaðið/Heiða Helgadóttir

„Föstudaginn 26. mars komu fangaverðir upp að gang 2B vegna þess að það var annar fangi í flogakasti, sem er lífshættulegt, sérstaklega þegar menn eru án lyfja,“ segir annar fanganna í samtali við Fréttablaðið. Það hafi fengið mikið á bæði fanga og fangaverði þegar þeir urðu varir við að fangi í næsta klefa var hættur að anda. Í ljós hafi komið að hann var í hjartastoppi.

Beint af spítala í einangrunarklefa

„Þá voru allir læstir inni og haft samband við 112. Skömmu síðar var endurlífgun hafin og hjartastuðtæki notað. Hann sýndi mér einmitt sárið sem hann var með út af því,“ segir fanginn sem var vinur hins látna.

Endurlífgunartilraunir báru árangur og hjartað sló á ný og var hann fluttu á sjúkrahús í kjölfarið.Að sögn fangana gekk erfiðlega að koma æðaleggjum í handlegginn á honum. Hann hafi verið úturstunginn hér og þar eftir þær tilraunir.

„Síðan um leið og hann fær rænu er honum hent í stuttbuxur og sjúkrahússlopp og fluttur til baka og beint í einangrun og án eftirlits. Beint í einangrunarklefa, sem er mjög algengt hérna.“

„Síðan um leið og hann fær rænu er honum hent í stuttbuxur og sjúkrahússlopp og fluttur til baka og beint í einangrun og án eftirlits. Beint í einangrunarklefa, sem er mjög algengt hérna.“

Samfangar mannsins segja hann hafa kvartað undan verkjum í útivist daginn áður en hann lést.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Gat varla gengið

Félagar hins látna á hrauninu segja hann loksins hafa fengið að fara í eina útivist 30. mars eftir heila helgi í einangrun.

„Hann var mjög illa á sig kominn og gat varla gengið án aðstoðar. Við þurftum að hjálpa honum að far upp minnstu brekku upp og niður, hann gat eiginlega ekki gengið og mátti ekki vera í skónum sínum. Það var ískalt og hann var bara í sandölum frá Litla-Hrauni.“

Kvartaði ítrekað við fanga og fangaverði

Á meðan á útivist stóð urðu fangar varir við að hann kvartaði ítrekað í fangaverði og aðra fanga undan verkjum í öllum líkama og doða og tilfinningaleysi í vinstri hendi.

„Hann var að sýna okkur sárin eftir stuðtækin og var mjög verkjaður og talaður sjálfur um að hann ætti að vera uppi á spítala. Við vorum að tala um að hann ætti ekki að vera þarna. Hann kvartar undan því að hann sé með verki í öllum líkamanum og doða í vinstri hendi án árangurs og var sagt að hætta þessu lyfjavæli, sem er algengt svar fangavarða þegar við leitum hjálpar vegna alls konar veikinda. Þá er alltaf sagt að við séum að væla um lyf. Ég hef persónulega lent í þessu.“

„Þarna var hann nýkominn aftur eftir hjartastopp, maður á besta aldri sem gat ekki labbað upp eins metra halla án stuðnings frá öðrum föngum.“

„Hann hafi átt að vera undir eftirliti lækna og ekki lokaður í fangaklefa.“
Fréttablaðið/Heiða Helgadóttir

Lést í einangrun

Daginn eftir, þann 31. mars, fær hann aðra útivist eftir aðra nótt að eftirlits að sögn fanganna. Sýndi hann þá föngum og vörðum stórt opið sár aftan á hægri öxl.

„Þetta var alveg risastórt opið sár, stærri en hnefinn minn, sem kom eftir nóttina og hann hafði miklar áhyggjur af, en fangaverðir létu enga fagmenn vita heldur létu hann fá plástur og sögðu honum að hætta þessu væli. Einn fangaverður sagði: „Þú getur sjálfum þér kennt, dópistinn þinn,“ og fangar urðu vitni að því þegar vörðurinn lét þessi ummæli falla,“ segir hann og lýsir hann því hvernig fanginn var sendur aftur í einangrun án þess að fá læknishjálp.

„Hann var aftur sendur í einangrun á ganginn og lokaður inni án læknisaðstoðar og eftirlits. Þar dó hann.“

Hvernig fékk hann þetta sár?

„Hann skildi ekkert í því hvers vegna hann var með þetta sár. Sumir héldu að hann hafi fengið þetta frá ofninum í herberginu hans. Ég talaði við hann persónulega og ofninn var ekki þannig staðsettur að þetta gæti gerst en það var aldrei rannsakað hvers vegna hann var með svona stórt og opið sár.“

Hvernig leit sárið út?

„Þetta var eins og blaðra sem hafði sprungið og hann fékk bara plástur og ekkert haft samband við fagmenn eða neitt. Þarna var hann nýkominn aftur eftir hjartastopp, maður á besta aldri sem gat ekki labbað upp eins metra halla án stuðnings frá öðrum föngum.“

Segir hann ljóst að samfangi hans hefði aldrei átt að fara eftirlitslaus í einangrun. Hann hafi átt að vera undir eftirliti lækna og ekki lokaður í fangaklefa.

„Hann þurfti hjálp við að komast upp í rúmið um nóttina, áður en hann lést. Þá hjálpuðu fangar honum að komast upp í rúm.“

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar.

Landspítali ráði hvenær sjúklingar eru útskrifaðir

Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, getur ekki tjáð sig um einstaka mál fanga en staðfestir að Landspítalinn sjái sjálfur um að útskrifa sjúklinga sína. Fangaverðir eða fangelsisyfirvöld hafi ekki ákvörðunarvald um hvenær aðilar séu útskrifaðir af spítala.

Páll segir að í gegnum tíðina hafi einstaklingar með geðrænan vanda átt erfitt með að fá innlögn en þó hafi það batnað töluvert eftir að geðheilsuteymi tók til starfa í fangelsum landsins, sem bætti tenginguna við geðdeildir spítalanna.

Heilsugæslan á Suðurlandi sér um heilbrigðisþjónustu fyrir fanga í fangelsinu á Litla Hrauni í samræmi við samning við Sjúkratryggingar Íslands.

„Við reyndum að hringja oft í prest en enginn hefur komið“

Aðspurður um áfallahjálp segir Páll að prestur hafi komið strax á staðinn ásamt sálfræðingni og því hafi verið fylgt eftir. Fangi sem Fréttablaðið ræddi við segist ekki enn hafa fengið áfallahjálp.

„Ég spurði fangaverðina þegar þeir komu með prestinn og sögðu að hann væri dáinn, hvers vegna hann væri ekki sjúkrahúsi og ég fékk ekkert svar. Þeir voru bara skömmustulegir og vissu upp á sig sökina. Þetta er bara mjög ill meðferð á manneskju, þetta er ekki rétt. Okkur var boðin áfallahjálp en síðan hringdum við og vildum fá að tala við prest og þá var ekkert í boði. Þegar við reyndum að leita okkur áfallahjálpar var það ekki í boði. Við reyndum að hringja oft í prest en enginn hefur komið enn,“ segir fanginn.

Óttast um líf sitt

Aðspurður segist hann óttast um líf sitt. Hann hafi sjálfur verið tekinn af flogaveikislyfjum sem hann hafði notað í tvö ár áður en hann fór á Litla-Hraun.

„Mér var kippt af lyfjunum og búinn að fá fjögur flokaköst, eitt mjög alvarlegt þegar kallað var á sjúkraflutningamenn. Einu sinni kom vinur minn að mér þegar ég var að kafna á ælunni minni. Ég man ekkert, því ég missi meðvitund í flogakosti. Þeim lýst ekkert á þessi lyf og þykjast vera fagmenn. Þeir eru bara með lista yfir lyf sem þeir banna og þar á meðal eru lyfin sem ég nota við flogaveiki sem virka best á mig.“

Guðmundur Ingi, formaður Afstöðu.
Sigtryggur Ari

Dæmi um fordóma á sjúkrastofnunum

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga, segir samtökin hafa fengið bæði símtöl og tölvupósta í gær og í dag um að eitthvað sé bogið við málið. Eins og er hafi hann ekki forsendur til að fjalla nánar um þetta tiltekna mál. Bæði af tillitssemi við aðstandendur og atvik málsins liggi ekki nægilega vel fyrir. .

„Ef eitthvað af þessu reynist rétt er þetta grafalvarlegt mál. Dæmi eru um að menn séu sendir allt of snemma til baka í fangelsið eftir sjúkrahúsvist sem hefur leitt til alvarlegra atvika. Það þarf ekki að vera fangelsisyfirvöldum að kenna heldur fordómum á sjúkrastofnunum eins og mörg dæmi eru um,“ segir Guðmundur.

Segir hann stefnu stjórnvalda í vímuefnamálum almennt og sérstaklega í fangelsum vera slæma og nauðsynlegt sé að ræða hana nánar. Það megi ekki bíða lengur. „Það er mikilvægt að rannsaka aðdragandann að þessu, ekki bara dauðsfallið sjálft.“

Enn bólar ekkert á nefnd heilbrigðisráðherra sem á að vera til ráðgjafar stjórnvöldum í vímuefnamálum, sem Guðmundur telur að eigi að vera skipaða grasrót notenda og notenda sjálfra og félagasamtaka sem vinna með þennan vanda eins og Afstaða, Frú Ragnheiður, Félagsvinir og Snarrótin.